Fréttasafn

Pamela de Sensi og Vilhjálmur Ingi Sigurðarson.

Tólf tóna kortérið á laugardaginn

Laugardaginn 8. mars kl. 15.00-15.15 og kl. 16.00-16.15 verður Tólf tóna kortérið á dagskrá í sal 04 í Listasafninu. Þá munu Pamela de Sensi og Vilhjálmur Ingi Sigurðarson frumflytja Fimm smálög eftir Steingrím Þórhallsson og leika einnig Face to Face eftir Edoardo Dinelli. Aðgangur er ókeypis og öll velkomin.
Lesa meira
Frá samsýningunni 2023.

Norðlenskir listamenn - opið fyrir umsóknir

Listasafnið á Akureyri efnir til samsýningar á nýjum verkum eftir norðlenska listamenn, 5. júní-14. september næstkomandi. Dómnefnd mun velja úr umsóknum þeirra sem búa og/eða starfa á Norðurlandi eða hafa tengingu við svæðið. Umsóknarfrestur er til og með 9. apríl.
Lesa meira
Þórgunnur Þórsdóttir.

Þriðjudagsfyrirlestur: Þórgunnur Þórsdóttir

Þriðjudaginn 4. mars kl. 17-17.40 heldur Þórgunnur Þórsdóttir, sérfræðingur á Safnasafninu, Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni Með myndlistina í bakpokanum. Þar mun hún fjalla um hvernig myndlist hefur á óljósan og skýran hátt fléttast inn í ferðalag hennar frá áhugaljósmyndun í átt að menningarmiðlun, safnastarfi og sýningarhönnun.
Lesa meira
Þriðjudagsfyrirlestur: Þúfa 46

Þriðjudagsfyrirlestur: Þúfa 46

Þriðjudaginn 25. febrúar kl. 17-17.40 heldur listafólkið Karólína Baldvinsdóttir og Kristján Helgason Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni Þúfa 46. Þar munu þau fjalla um samvinnustofur 11 listamanna á Eyrinni á Akureyri sem tóku til starfa í ársbyrjun. Í Þúfu 46 eru vinnustofur, námskeið, sölugallerí og viðburðir, en húsnæði hýsti áður smíðaverkstæðið Valsmíði í Gránufélagsgötu 46.
Lesa meira
Listasafnið hlýtur styrki frá Safnasjóði

Listasafnið hlýtur styrki frá Safnasjóði

Á dögunum var ársfundur höfuðsafnanna haldinn í Þjóðminjasafni Íslands. Þar úthlutaði Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, styrkjum úr aðalúthlutun safnasjóðs og hlaut Listasafnið 3,5 milljónir til þriggja verkefna fyrir árið 2025. Auk þess hlaut safnið öndvegisstyrk upp á 10 milljónir til tveggja ára til verkefnis sem tengist varðveislu og skráningu safneignar. Til höfuðsafna teljast Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands og Þjóðminjasafn Íslands.
Lesa meira
Tvær sýningar opnaðar á laugardaginn

Tvær sýningar opnaðar á laugardaginn

Laugardaginn 22. febrúar kl. 15 verða sýningarnar Sköpun bernskunnar 2025 og Margskonar I opnaðar í Listasafninu á Akureyri. Sólveig Baldursdóttir, myndhöggvari, opnar sýningarnar formlega og eldri barnakór Akureyrarkirkju syngur. Sýningarstjóri beggja sýninga er Heiða Björk Vilhjálmsdóttir.
Lesa meira
Kateryna Ilchenko.

Þriðjudagsfyrirlestur: Kateryna Ilchenko

Þriðjudaginn 18. febrúar kl. 17-17.40 heldur úkraínska listakonan Kateryna Ilchenko Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu undir yfirskriftinni The Executed Renaissance of Ukraine. Í fyrirlestrinum, sem fer fram á ensku, mun hún fjalla um úkraínskt listafólk sem var uppi á árunum 1920-1930 og beitt grimmilegri kúgun af hendi Sovétríkjanna. Ógnarstjórnin þaggaði niður í listafólkinu með hótunum, ofbeldi og morðum og raddir þeirra voru þurrkaðar út. Saga þessa fólks má ekki gleymast því sagan endurtekur sig. Hvað segja raddir látinna listamanna okkur? Hvað áttu þær eftir að segja okkur?
Lesa meira
Lokamynd Frönsku kvikmyndahátíðarinnar

Lokamynd Frönsku kvikmyndahátíðarinnar

Frönsku kvikmyndahátíðinni á Akureyri lýkur í Listasafninu á sunnudaginn kl. 15 þegar sýnd verður gamanmyndin Chien de la casse (Junkyard Dog). Myndin fjallar um hina ungu og atvinnulausu Dog og Mirales, sem búa í litlu þorpi í suður Frakklandi og deila eldfimri vináttu. Lífi þeirra er snúið á hvolf þegar ung kona kemur til sögunnar og Dog verður ástfanginn af henni. Raphaël Quenard hlaut César verðlaunin 2024 sem besti leikari í aðalhlutverki.
Lesa meira
Fjölskylduleiðsögn á sunnudaginn

Fjölskylduleiðsögn á sunnudaginn

Sunnudaginn 16. febrúar kl. 11-12 mun Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, verkefnastjóri fræðslu og miðlunar, segja börnum og fullorðnum frá sýningunum; Huldukona, Átta ætingar og Dömur mínar og herrar. Að lokinni leiðsögn er gestum boðið að búa til sitt eigið listaverk, innblásið af verkum sýninganna.
Lesa meira
Frá sýningu Huldu Vilhjálmsdóttur.

Leiðsögn um þrjár sýningar á laugardaginn

Laugardaginn 15. febrúar kl. 15 verður boðið upp á leiðsögn um þrjár sýningar: Hulda Vilhjálmsdóttir – Huldukona, Kristján Guðmundsson – Átta ætingar og Þórður Hans Baldursson / Þórunn Elísabet Sveinsdóttir – Dömur mínar og herrar. Aðgangur er innifalinn í miðaverði Listasafnsins.
Lesa meira