Safneign Listasafns Háskóla Íslands
Stofn
03.12.22-19.11.23
Salir 08
Listasafn Háskóla Íslands var stofnað 1980. Líkt og mörg háskólalistasöfn erlendis byggir það safneign sína að hluta til á gjöfum. Stofngjöf hjónanna Ingibjargar Guðmundsdóttur (1911-1994) og Sverris Sigurðssonar (1909-2002) vegur þar þyngst en alls gáfu þau safninu um 1200 verk. Listaverkagjafir þeirra til safnsins eru meðal verðmætustu gjafa sem Háskóla Íslands hafa borist. Einnig hafa ýmsir íslenskir listamenn eða dánarbú þeirra gefið safninu verk sín. Að öllu samanlögðu hafa Listasafni Háskóla Íslands verið gefin hátt í 1300 listaverk. Með innkaupum safnsins hefur verið aukið við listaverkaeignina og á Listasafn Háskóla Íslands nú um 1550 listaverk sem reglulega eru til sýnis í byggingum háskólans.
Stofngjöfin til Listasafns Háskóla Íslands var að stórum hluta fjölmörg abstraktverk frá miðbiki og seinnihluta 20. aldar sem lagði grundvöll að einstöku safni. Á þessari sýningu verða sýnd abstraktverk eftir listamenn eins og Þorvald Skúlason, Karl Kvaran, Hörð Ágústsson, Guðmundu Andrésdóttur, Eyborgu Guðmundsdóttur o.fl.