BERGÞÓR MORTHENS



BERGÞÓR MORTHENS
ÖGUÐ ÓREIÐA 
27.09.2025 – 18.01.2026
Salur 01

Í verkum Bergþórs Morthens eru mörkin á milli málverks og skúlptúrs óljós, en efnin þau sömu, rétt eins og litirnir og meðferð þeirra. Myndheimurinn er lifandi og verkin flökta á milli myndrænnar túlkunar og hins óhlutlæga. Skilin á milli innra og ytra yfirborðs og þess sem liggur undir verða óljós, í gróteskum og brengluðum formum sem hylja, en afhjúpa á sama tíma. Óhóf og ofhlæði, þar sem ferlið við verkin endurspeglar öfgakennda efnishyggju samfélagsins: uppbygging og niðurrif, sköpun og eyðilegging. Verkin vísa í sögu, samtíma, dægurmenningu, listasögu, pólitík, hið undarlega og hið gróteska.

Bergþór Morthens (f. 1979) lauk námi við Myndlistaskólann á Akureyri 2004 og meistaranámi í myndlist við Valand háskólann í Gautaborg 2015. Verk hans hafa verið sýnd á Íslandi, í Svíþjóð, Danmörku, Grikklandi og Rúmeníu.