Safnfræðsla


SAFNFRÆÐSLA FYRIR ÖLL SKÓLASTIG OG ALMENNING

Safnfræðsla Listasafnsins á Akureyri miðast við að upplýsa og fræða nemendur á öllum skólastigum um þær sýningar sem þar eru í boði. Mikilvægt er að þroska listræna sýn og sköpun gegnum fræðslu og samtöl við skólahópa. Fræðslan er ýmist eingöngu munnleg eða munnleg og verkleg, allt eftir því hvað við á hverju sinni. Fræðslufulltrúi Listasafnsins leitast einnig við að ná til almennings með opinberri listumfjöllun um sýningar í safninu. Að kynna sér þessar umfjallanir er góður undirbúningur fyrir heimsókn. 

TENGING VIÐ AÐRAR NÁMSGREINAR

List er afar víðfeðm. Hún getur vakið sterkar tilfinningar og tekur á margvíslegum viðfangsefnum, s.s. fagurfræði, menningu, náttúru, sögu, umhverfi, viðhorfum, vísindum, einstaklingnum, mannslíkamanum, matvælum og félagslegum gildum. Þannig getur listin auðveldlega tengst mismunandi námsgreinum. Hún getur víkkað sjóndeildarhring áhorfandans og hjálpað honum að sjá sjálfan sig, umhverfið og lífið á margvíslegan hátt. Listasafnið og Listagilið er frjótt, fjölbreytilegt og skapandi umhverfi sem er einstakt út af fyrir sig. Þar er hægt að sækja sér innblástur, efla andann eða finna sér fræðslutengda afþreygingu, til skemmtunnar og uppliftingar.

UNDIRBÚNINGUR HEIMSÓKNA OG ÚRVINNSLA

Heimurinn tekur stöðugum breytingum og því er eðlilegt að safnfræðslan sé einnig í stöðugri þróun og aðlagi sig að væntingum og eftirspurn. Hún er fyrst og fremst ætluð nemendum allra skólastiganna á Akureyri en einnig er hægt að taka á móti öðrum hópum eftir samkomulagi. Mikilvægt er að safnfræðslan sé allt í senn fræðandi, feli í sér samtal um list, veiti rými til upplifana, sköpunar og tjáningar á upplifunum. Nemendur geta fengið að skissa upplifanir sínar á blað á meðan þeir skoða sýningu, sem getur verið gagnlegt að vinna áfram með í skólastofunni, ef það hugnast viðkomandi kennara. Þjálfun í myndlestri og fagurfræði tekur tíma og því er mikilvægt að byrja snemma að fara með börnin í safnaheimsóknir. Heimsóknirnar geta þjálfað þau í gagnrýnni hugsun, hlustun og tjáningu. Rannsóknir sýna að safnfræðsla skilar bestum árangri þegar nemendur koma á safnið með einhverjar hugmyndir um það sem þeir eru að fara að skoða, ná að tengja upplifun sína á safninu við eigin reynsluheim og vinna á skapandi hátt úr upplifun sinni í skólastofunni, að heimsókn lokinni, í formi verkefna, listsköpunar og/eða umræðna.  Sköpun er talin afar mikilvæg í nýrri námsskrá, þar sem hún eykur ánægju, úrræði, víðsýni, víkkar sjóndeildarhringinn og opnar leiðir fyrir nýjar tengingar og möguleika. Gott er að hafa hópana ekki stærri en 15-20 nemendur í senn, og alls ekki fleiri en 30.

SÝNINGADAGSKRÁ OG TÍMAPANTANIR

Upplýsingar um sýningadagskrá má finna HÉR. Tíma í safnfræðslu má panta hjá Guðrúnu Pálínu Guðmundsdóttur, fræðslufulltrúa, með því að senda skilaboð á netfangið heida@listak.is eða hafa samband í síma 461-2610.