Inga Lísa Middleton
Hafið á öld mannsins
02.06.2023 – 13.08.2023
Salur 04
Svifþörungar eru smæstu lífverur hafsins. Þeir framleiða allt að 50% alls súrefnis, auk þess að binda um 40% af öllum koltvísýringi sem leystur er úr læðingi. Þar sem hvalir fyrirfinnast er einnig að finna þéttustu breiður svifþörunga, því úrgangur hvala inniheldur þau járn og nítröt sem þörungarnir þrífast á. Þetta merkilega samspil á milli smæstu og stærstu lífvera jarðar er ein af úrlausnum náttúrunnar til að takast á við loftslagsvána.
Milljónir tonna af plasti enda árlega í hafinu. Það hefur skaðleg áhrif á hvali sem gleypa það í æ meira magni og örplast getur hamlað ljóstillífun og vexti þörunga. Ef þörungar og hvalir hverfa, þá er hætt við að mannkynið hverfi líka.
Inga Lísa Middleton (f. 1964) stundaði ljósmyndanám við UCA Farnham og Royal College of Art í Bretlandi. Ljósmyndaverk hennar hafa verið sýnd víða um heim, þar á meðal í London, París, Tókýó, Kaupmannahöfn og Reykjavík.