Dröfn Friðfinnsdóttir



Dröfn Friðfinnsdóttir
Töfrasproti tréristunnar
26.08.2023 – 10.03.2024
Salur 09

Dröfn Friðfinnsdóttir (1946-2000) nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1962-1963 og við Dupointskólann í Kaupmannahöfn 1964. Haustið 1982 hóf hún nám við Myndlistaskólann á Akureyri og útskrifaðist þaðan frá málaradeild 1986. Hún hélt áfram námi í Finnlandi 1987-1989. Dröfn hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir list sína og 1998 var hún Bæjarlistamaður Akureyrar.

Sýningin Töfrasproti tréristunnar fjallar um afar frjótt tímabil í listsköpun Drafnar, sem hófst í námsferð til Finnlands 1987 og stóð til 1999, þar sem tréristan er hennar aðalviðfangsefni. Dröfn risti myndverk sín í stórar og grófar krossviðarplötur og þrykkti eitt eintak í einu án aðstoðar hefðbundinna grafíkáhalda. Á þennan nána hátt glímdi Dröfn bæði við efnið og andann. Þegar liturinn og tréð létu undan sífelldum strokum listamannsins og gáfu eftir á pappírinn fullbúið verk, er eins og myndin fljóti á milli flatarins og áhorfandans, þar sem æðar og áferð prentplötunnar eru enn til staðar eins og fjarlæg minning.

Sýningarstjóri: Haraldur Ingi Haraldsson.