Steinunn Gunnlaugsdóttir

Steinunn Gunnlaugsdóttir
blóð & heiður
27.08.2022-13.08.2023
Salur 06 

Verkið samanstendur af fjórum fánum sem blakta á fánastöngum á svölum Listasafnsins. Fánarnir eru afrakstur tilraunar þar sem þrír þættir voru bræddir saman: íslenski þjóðfáninn, leturgerðin Comic Sans og þeir stafir íslenska stafrófsins sem tákna hljóðin sem fólk gefur frá sér við sársauka: A, Á, Ó, Æ.

Steinunn Gunnlaugsdóttir (f. 1983) útskrifaðist frá myndlistadeild Listaháskóla Íslands vorið 2008 og tók þátt í listnámi í menningarstofnuninni Ashkal Alwan í Beirút í Líbanon veturinn 2013-2014.

Af gáskablandinni alvöru tekst hún á við hin fjölmörgu hugmyndafræðilegu og siðferðislegu kerfi sem mannskepnan skapar, fæðist inn í, lifir við og berst gegn. Með því að skoða og berhátta grunnstoðir hins siðmenntaða mannheims verður til efniviður fyrir tilraunir Steinunnar til að ávarpa samtímann.

Steinunn var tilnefnd til Íslensku myndlistarverðlaunanna sem listamaður ársins 2018. Árið 2021 fékk hún verðlaun úr styrktarsjóði Richard Serra fyrir framlag sitt til skúlptúrlistar.