Samsýning
Hér og þar I
10.02.2023 – 04.06.2023
Hjúkrunarheimilið Hlíð
Samstarf við ólíka hópa er mikilvægur þáttur í starfsemi Listasafnsins á Akureyri. Sífellt er leitað leiða til að útvíkka starfsemina og gera safneignina aðgengilega öllum aldurshópum. Í ár er bryddað upp á þeirri nýbreytni að vinna heildstæðar sýningar frá grunni og setja upp utan safnsins. Listasafnið og Hjúkrunarheimilið Hlíð vinna saman að því að fræða og gleðja íbúa, starfsfólk og gesti Hlíðar með tveimur myndlistarsýningum 2023 og leiðsögn þeim tengdum. Sýningunum er ætlað að viðhalda menningarlegri tengingu íbúa við myndlistarsögu bæjarins, vekja upp minningar og samræðugrundvöll um myndlist og samfélagið.
Verk eftir listamennina Jón Laxdal, Roj Friberg og Þorvald Þorsteinsson verða sýnd á fyrri sýningunni, en allir hafa þeir unnið með bókmenntir og texta í verkum sínum. Á seinni sýningunni verða verk sem sýna náttúru og mannlíf, eftir listamennina Einar Helgason, Guðmund Ármann Sigurjónsson og Tryggva Ólafsson.