SJÁVARSÝN
Listasafnið á Akureyri 27. apríl ? 9. júní 2013
Íslenskir myndlistarmenn hafa oft sótt innblástur sinn til hafsins og veitir þessi sýning, sem byggð er á úrvali verka úr fórum Listasafns Íslands, áhugaverða yfirsýn yfir hvernig þeir hafa nálgast þetta viðfangsefni í gegnum tíðina. Þjóðin var mótuð af hugsunarhætti landbúnaðarsamfélagsins fram undir lok síðari heimsstyrjaldar og fengust listamenn næstum eingöngu við landslagsmyndir fram að þeim tíma. Þegar líða tók á fjórða áratuginn viku rómantískar náttúrulýsingar, sem hjálpuðu til við að sameina þjóðina í sjálfstæðisbaráttunni, fyrir persónulegri og fjölbreyttari hugarefnum um leið og sjávarútvegurinn festi sig í sessi sem aðalatvinnuvegur landsins. Þótt Íslendingar hafi lengi sótt sjóinn og búi flestir við ströndina fer ekki mikið fyrir hafinu í okkar myndlistarsögu. Á því eru þó ýmsar merkilegar undantekningar eins og sjá má á þessari sýningu sem skartar verkum eftir marga af okkar þekktustu myndlistarmönnum.
HS
Ein elsta myndin á þessari sýningu er, Fiskverkun við Eyjafjörð eftir Kristínu Jónsdóttur (1888-1959) frá árinu 1914 sem sýnir konur að störfum á bryggju við að stafla saltfiski. Sama myndefni, þ.e. íslenskt fiskverkafólk að störfum, tók Kjarval (1885-1972) fyrir þegar hann var fenginn til að mála myndir frá íslenskum sjávarútvegi á veggi annarrar hæðar Landsbankahússins við Austurstræti 1924-1925. Það er í raun fyrst á þessum tíma sem má merkja að íslenskir málarar séu farnir að mála verkafólk og sjómenn við fiskveiðar.
Finnur Jónsson (1892-1993) varð einna fyrstur til að sinna sjávarmyndefninu til jafns við annað myndefni og gerði svo allan sinn feril. Myndir hans af fiskimönnum á sjó undirstrika smæð mannsins og víðáttu hafsins við misjafnar aðstæður þar sem bæði litanotkun og myndbygging draga fram spennu og hreyfingu svo auðvelt er fyrir áhorfandann að ímynda sér hvernig aldan er stigin. Verk Finns, Rauðkembingur frá árinu 1976 sýnir hvernig einfaldleiki formsins hefur yfirráð og allt smálegt er þurrkað út þannig að aflsmunur hvals og tveggja manna á báti sem fanga hann er langt frá því að vera tekið raunsæistökum af málaranum.
Sá íslenski listamaður sem er þekktastur fyrir sjávarmyndir er Gunnlaugur Scheving (1904-1972). Gunnlaugur málaði myndir tengdar sjónum og sjósókn allan sinn feril eða frá því að hans fyrsta stóra sjávarmynd, Bassabáturinn, var máluð 1929-1930. Þó marka Grindavíkurmyndir Schevings rúmum tíu árum síðar nokkur tímamót á ferli hans þar sem hann fer að einbeita sér meira en fyrr að sjónum. Þessar myndir verða aflvaki síðari verka hans og á þessum tíma, árunum sem hann dvaldist í Grindavík (1940-1947), nær hann fram þeim litum sem hann síðar vinnur með og sankar að sér hugmyndum sem áttu eftir að reynast honum drjúgar í sínum stóru verkum frá 6. og 7. áratugnum.
Einkennandi fyrir list Gunnlaugs hin síðari ár er einföldun formsins þar sem beinar skálínur og köntuð form eru allsráðandi í allri myndbyggingu. Við bætist svo sjónarhorn áhorfandans um borð í sjálfum bátnum sem sjaldnast siglir lygnan sjó. Sjómennirnir um borð eru dregnir upp með sömu beinu línunum og eru þar af leiðandi stirðir í stærð sinni þar sem hetjulegt svipbrigðaleysið eflir dramatík myndefnisins. Við vinnu sína gerði Gunnlaugur fjölda skissa þar sem hlutföll og staðsetningar voru mátaðar til að ná fram sem mestri spennu og sem bestri myndbyggingu fyrir myndefnið. Sæþoka sem Gunnlaugur lauk við árið 1968 á sér hliðstæðu í myndinni Hákarlinn tekinn inn frá árinu 1965 þar sem myndbygging þessara mynda er áþekk, sem og myndefnið. Í þessum verkum Gunnlaugs koma fram hans helstu áhrifavaldar, málarar á borð við Léger og Picasso sem upphófu verkamanninn, en stíll þeirra og tækni veitti Gunnlaugi ekki síður innblástur hvort sem það var í sjávarmyndum hans eða sveitamyndum. Hefðbundnari mynd að uppbyggingu er til dæmis Fisklöndun frá 1966 þó að þar sé einnig verið að leika með snið sjálfs myndflatarins; mennirnir í forgrunni eru klipptir um mittið. Vinna hafnarverkamanna í Reykjavíkurhöfn er einnig myndefni Jóns Þorleifssonar (1891-1961) þar sem léttleiki myndarinnar ræðst öðru fremur af litanotkun og jafnri birtudreifingu sem einkenndi myndir Jóns á þessum tíma.
Þeir listamenn sem komu fram á fjórða áratugnum sinna því myndefni sem hér er til sýningar enda verður ,,maðurinn við vinnu sína? eitt af aðalviðfangsefnunum á þessum tíma kreppuáranna þar sem expressjónisminn rís hæst í íslenskri myndlist. Breiðar útlínur formanna og andstæðra litaflata byggja upp myndflötinn og tjáning listamannsins á myndefninu endurspeglar hans innri tilfinningu gagnvart því og skilar sér til áhorfandans með hinni einföldu myndbyggingu þar sem öllum smáatriðum er sleppt.
Jón Engilberts (1908-1972) er einn þeirra listamanna sem koma fram á þessum tíma en eitt af höfuðviðfangsefnum Jóns á fjórða áratugnum var manneskjan. Myndir Jóns sýna gjarnan fólk að kvöldlagi í sjávarþorpi, fólk í frítíma sínum, fólk á leið til kirkju eða fólk við vinnu og svo mætti áfram telja. Mynd hans Við ströndina frá 1945 er skipt í annars vegar stóran bakgrunn þar sem heilt sögusvið kemur fram og hins vegar stúlku, í forgrunni, sem virðist tilheyra öðrum tíma og plani en myndefnið sjálft sem heiti myndarinnar vísar til. Þannig má leiða að því líkum að hér séu tvö tímaskeið innan myndrammans, nútíð og fortíð.
Í verkum Jóhanns Briem (1907-1991) er myndefnið ávallt einfaldað til hins ítrasta þar sem málarinn, með sínum einfalda litaskala og formum, dregur upp myndir sem eru lausar við alla athöfn. Verkið Rauður bátur, málað 1972, er frá frjóasta skeiði Jóhanns þar sem litir og form gegna aðalhlutverki í uppbyggingu og spennu myndheildarinnar. Báturinn í fjörunni er hér ekki nákvæm eftirmynd af báti heldur einföld táknmynd.
Lífsgleði einkennir verk þeirra Svavars Guðnasonar (1909-1989) og Karls Kvaran (1924-1989) sem eru ekki að öllu leyti abstraktverk. Skip og haf frá 1939 sýnir að Svavar er ekki alveg búinn að má hið hlutbundna úr myndlist sinni því vel má greina skútuna sem siglir á bláu hafinu undan ströndum á tvívíðum myndfletinum sem er laus við alla dýpt. Hin fígúratífa frásögn er enn auðsærri í verkum Karls frá Skerjafirðinum þar sem myndfletinum er skipt upp með ströndinni, hafinu og himninum og bátarnir og verurnar á ströndinni eru málaðar með stórum hvítum litaflötum sem skera sig úr. Af léttleika litanna má ætla að hér sé það frítíminn sem myndefnið fjallar um, þ.e. konur sitjandi á strönd.
Myndir Jóns Stefánssonar (1881-1962) á sýningunni bera augljós einkenni Jóns þar sem samræmi formsins er í hávegum haft og myndskipun leiðir öll til þess að skapa jafnvægi innan myndrammans. Í verkinu Sjómenn við ströndina eða Formenn frá 1940 gefur að líta eftirtektarverða myndbyggingu þar sem fremst til vinstri, í forgrunni myndarinar, er aðalmyndefnið, þ.e. þrír formenn sem standa á kletti. Þeir fylla upp í hæð myndflatarins og draga þannig augu áhorfandans strax til sín. Fyrir neðan klettinn stendur hópur sjómanna og sést aðeins í hluta andlita þeirra og fjær sést brimrót við kletta. Hin samhverfa myndbygging sem oft er í verkum Jóns er horfin og aðaláherslan er lögð á formennina þrjá í forgrunni myndar. Staða þeirra til hliðar á myndfletinum opnar sýnina til hafs, einnig birtan sem þeir skyggja á að hluta, en minnst er gert úr sjómannahópnum í miðhluta myndarinnar. Þessi myndbygging og sú túlkunarleið sem Jón fer í þessari mynd skýrir hann sjálfur svo, að myndin fjalli um ,,hið aðþrengda fólk á milli náttúruaflanna og foringjanna? (Ólafur Kvaran, ,,Jón Stefánsson: Tjáning hughrifa og klassískt samræmi? frá 1989).
Ágúst Petersen (1909-1990), sem átti rætur sínar að rekja til Vestmannaeyja málaði margar myndir frá höfninni í Eyjum þrátt fyrir að vera á þeim tíma búsettur í Reykjavík. Þær myndir sem hér eru dregnar fram sýna litla báta halda í róður. Einlægni málarans við myndefnið má merkja af einfaldleikanum og látleysinu í hinum dempuðu, mildu litum.
Veröld þorps og strandar var að töluverðu leyti viðfangsefni Veturliða Gunnarssonar (f. 1926) í málverkum hans. Þar eru það vestfirsku þorpin sem málarinn þekkti svo vel sem veita honum innblástur. Verbúðirnar, bárujárnshúsin, alþýðufólkið, stormurinn og hafrótið koma oft fyrir í verkum Veturliða þar sem sérstæð myndbyggingin, sem minnir nokkuð á sum verka Jóns Engilberts, gegnir því hlutverki að búa til logandi veröld líkt og í Undir jökli frá 1974 þar sem smæð mannvirkja er algjör og þau ofurseld náttúrunni um kring.
Þessi sýning varpar nokkru ljósi á hin ólíku efnistök þeirra málara sem hefur verið fjallað um og eiga myndir á sýningunni. Það er ljóst að mikils margbreytileika gætir hjá málurum okkar þegar kemur að sjávarmyndum hvort sem þar er verið að sýna raunsæja mynd af hinni vinnandi stétt sjómanna eða fiskverkafólks eða frítímanum gefinn gaumur. Hin ríka hefð fyrir landslagsmyndum sem við Íslendingar eigum kemur ekki nema að litlu leyti inn á þetta svið, og í raun er það fyrst um og upp úr 1920 sem málarar fara að fást við myndefnið í einhverjum mæli. Það er svo með fulltrúum expressjónismans á Íslandi, þar sem farið var að mála hina vinnandi stétt, að myndefninu var veitt fullt brautargengi. Að lokum má einnig geta þess að fulltrúar ljóðræna og expressjóníska abstraktsins um miðja 20. öldina sóttu ósjaldan innblástur til hafsins en ákveðið var fyrir þessa sýningu að einskorða val verka við það að þau hefðu til að bera hina fígúratífu frásögn.
Byggt á texta eftir Hörpu Þórsdóttur frá 2003
-
Myndir