Arkitektúr og Akureyri
Listasafnið á Akureyri, Ketilhús, 21. maí - 28. ágúst
Eins og titillinn gefur til kynna er viðfangsefni sýningarinnar Arkitektúr og Akureyri byggingarlist á Akureyri. Í amstri dagsins vill oft gleymast að hlutir og byggingar þess manngerða umhverfis sem við lifum og hrærumst í voru upphaflega hugmynd sem kviknaði í huga einhverrar manneskju. Sköpunarverk sem birtast okkur fullmótuð byrjuðu öll sem lítil hugmynd.
Valdar voru byggingar eftir núlifandi arkitekta sem ýmist hafa unnið í samkeppnum eða hlotið sérstakar viðurkenningar. Gestir fá tækifæri til að kynna sér hugmyndirnar og innblásturinn sem liggja að baki byggingunum sem allar eru aðgengilegar almenningi.
Söguleg nálgun er annar vinkill sýningarinnar og unnin með sérlegri aðstoð Minjasafnsins á Akureyri og Skipulagsdeildar Akureyrar. Þar má meðal annars sjá ljósmyndir af byggingum á Akureyri sem nú eru horfnar auk aðalskipulags í sögulegu samhengi.
Gestum Arkitektúr og Akureyri gefst kostur á þátttöku í sýningunni með því að taka mynd af byggingu sem þeir vilja sýna. Myndirnar þarf að senda á netfangið listak@listak.is með efnistitlinum (subject) Arkitektur og upplýsingum um staðsetningu, götuheiti og númer ásamt nafni viðkomandi ljósmyndara. Myndirnar sem berast verða prentaðar og hengdar upp með tilvísun í staðsetningu. Þannig verður einn þáttur sýningarinnar breytilegur með þátttöku gesta eftir því sem sýningartíminn líður.
Sýningarstjórar: Helga Björg Jónasardóttir og Haraldur Ingi Haraldsson.
Sérstakar þakkir: Minjasafnið á Akureyri.