NOT – norðlensk vöruhönnun
Listasafnið á Akureyri, Ketilhús, 25. júlí - 30. ágúst 2015
NOT – norðlensk vöruhönnun er samsýning nokkurra vöruhönnuða sem búsettir eru á Norðurlandi. Akureyri var á síðustu öld helsti iðnaðarbær landsins þar sem framleiddar voru fjölbreyttar vörur. Í dag eru breyttir tímar og framleiðslan ekki eins viðamikil og áður en þrátt fyrir annað landslag er mikil vöruþróun og hönnun á svæðinu.
Á sýningu Epal á Hönnunarmars 2014 voru 5 af 30 sýnendum frá Akureyri. Í kjölfarið vaknaði áhugi á að sýna verk norðlenskra vöruhönnuða í heimabyggð. Til sýnis nú eru verkin sem sýnd voru í Epal auk nýrra verka eftir hönnuðina, en þau voru hönnuð sérstaklega fyrir sýninguna í Ketilhúsinu. Í hönnunarferlinu var unnið út frá orðinu hús-gagn með vísun til nytjahluta sem gagnast á heimilum. Að auki setti hópurinn sér það markmið að nýta þekkingu og tækjakost norðlenskra fyrirtækja til framleiðslu á vörunum. Afraksturinn eru alíslenskar vörur, hannaðar og framleiddar að mestu leyti á heimaslóðum. Að sýningunni standa Björg í bú - vöruhönnun, Herdís Björk Þórðardóttir, María Rut Dýrfjörð, Sandra Kristín Jóhannesdóttir og Sveinbjörg Hallgrímsdóttir.
Fyrirtæki sem koma að gerð frumgerða eru meðal annars Hrísiðn, Valsmíði, Ölur og fleiri. Verkefnið fékk styrk frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands til vinnslu á frumgerðum auk áframhaldandi vöruþróunar og sýningar á Hönnunarmars 2016. Sýningarstjóri er Helga Björg Jónasardóttir. Sýningin er opin þriðjudag til sunnudaga kl. 10-17.
Leiðsögn um sýningarnar í Listasafninu / Ketilhúsinu er alla fimmtudaga kl. 12.15 og er aðgangur er ókeypis.