Lokamynd Frönsku kvikmyndahátíðarinnar

Frönsku kvikmyndahátíðinni á Akureyri lýkur í Listasafninu á sunnudaginn kl. 15 þegar sýnd verður gamanmyndin Chien de la casse (Junkyard Dog). Myndin fjallar um hina ungu og atvinnulausu Dog og Mirales, sem búa í litlu þorpi í suður Frakklandi og deila eldfimri vináttu. Lífi þeirra er snúið á hvolf þegar ung kona kemur til sögunnar og Dog verður ástfanginn af henni. Raphaël Quenard hlaut César verðlaunin 2024 sem besti leikari í aðalhlutverki. Hér er stikla.

Franska kvikmyndahátíðin á Akureyri er haldin í samstarfi við Bíó Paradís, Myndform og Sambíóin og hófst 6. febrúar síðastliðinn. Sýningar hafa farið fram í Sambíóunum, Amtsbókasafninu og Listasafninu. Hátíðin er haldin árlega og skipulögð af sendiráði Frakklands á Íslandi, Alliance Francaise de Reykjavík, Institut Français og Akureyrarbæ.