4. ágúst til 26. ágúst
Sjónlistamiðstöðin kynnir með stolti ljósmyndarann og Akureyringinn Bernharð Valsson ? Benna Vals, sem mun leggja undir sig Ketilhús í byrjun ágústmánaðar. Heimsfræg andlit munu hanga uppi um alla veggi og gefur hér að líta úrval verka frá síðastliðnum árum sem eiga það sammerkt að birta okkur leiftursýn af listamönnum í kynningarherferð á kvikmyndum, hljómplötum, tónleikum, bókum og öðrum sköpunarverkum sínum og voru myndirnar oft teknar við nokkuð knappar aðstæður, ósjaldan á hótelherbergjum. Sem dæmi um andlit á sýningunni má nefna Robbie Williams í stúdíói í London og Leonardo DiCaprio og Martin Scorsese í anddyri kvikmyndahúss í París. Benni hefur verið búsettur í París frá 1986, en þar nam hann ljósmyndun og hefur verið sjálfstætt starfandi frá árinu 1995. Myndir eftir hann birtast reglulega í blöðum og tímaritum eins og Esquire, GQ, Elle, Le Monde, Les Inrockuptibles og Mademoiselle.