Samsýning
Línur
Salir 01-05
01.02.20 - 03.05.20
Átta listamenn frá sex ólíkum löndum og fjórum heimsálfum: Hong Kong, Litháen, Japan, Þýskalandi, Mexíkó og Túnis, „draga línur”. Línurnar verða til í gegnum ólík listform í þeim tilgangi að eiga samskipti við umheiminn. Sýningin Línur tengir Ísland við fjarlæga og framandi menningarheima í gegnum myndlist. Hluti verkanna er staðbundinn, þ.e. unninn sérstaklega inn í rýmið í Listasafninu á Akureyri. Meðal þess sem verður til í rýminu eru kontrapunktar þar sem verkin ýmist trufla eða bæta við hvert annað.
Titill sýningarinnar vísar til tenginga milli landa, milli listforma, milli listamanna og við samfélagið. Lína er ljóðræn, listræn fegurð, sem talar við samfélagið á opinn og hlutlausan hátt. Allt er spurning um sjónarhorn, hvert „horn“ afhjúpar eitthvað nýtt og verður hvati að ólíkum samtölum. Sýning sem þessi skapar skilning í gegnum samskiptin sem eiga sér stað milli listforma og menningarheima – slíkt leiðir af sér aukið umburðarlyndi og samkennd.
Þátttakendur: Almuth Baumfalk, Þýskalandi, Armando Gomez, Mexíkó, Hiro Egami, Japan, Rym Karoui, Túnis, Miyuki Kido, Japan, Kristine Schnappenburg, Þýskalandi, Saulius Valius, Litháen, Lap Yip, Hong Kong.
Sýningarstjóri: Mireya Samper.