Spor í áttina

Hjördís Frímann

Spor í áttina - áfangastaður ókunnur
Ketilhús 18. júní ? 16. júní 2013

? ... að byrja á málverki er eins og að leggja af stað í leiðangur þar sem áfangastaður er ókunnur? segir Hjördís einhvers staðar. Þetta er ekki ósvipuð tilfinning og grípur mig þegar ég ?byrja á málverki? eftir Hjördísi - og ég veit að svo er um fleiri. Maður gjóar í sakleysi sínu augum á laglega snót með græna skuplu og óræðan alvörusvip eða búsældarlega býflugu á sveimi um heiðbláan himin í hægra horninu efst og veit ekki fyrr til en maður er kominn hálfa leið til Afríku eða alla leið uppí íslenska sveit nema hvorttveggja sé og ég sem ætlaði hreint ekki að fara nokkurn skapaðan hlut, það þarf jú að skúra, það þarf að þvo, það þarf að klappa köttum og greiða hár og reikninga, planta trjám og hugmyndum og allur þessi þorskur veiðir sig heldur ekki sjálfur að ekki sé nú minnst á hagvöxtinn, drottinn minn. Allskyns knýjandi verkefni kalla en það er um seinan, þau verða að bíða. Maður er lagður upp í þennan leiðangur og verður vessgú að klára hann með öllum þeim útúrdúrum og undrafundum sem á vegi manns kunna að verða. Og taka því sem að höndum ber; höndum og berjum, saklausum augum og grunsamlegum eyrum, skúmaskotum og sólbökuðum ökrum, maríubjöllum í húsnæðisleit og depilhöggum. Fólki, skepnum, fyrirbærum og formum. Og litum. Umfram allt litum.

Fólkið sem maður hittir í þessum leiðöngrum er af ýmsu tagi en á það allt sameiginlegt að vera langtífrá allt sem það er séð. Oftast eru þetta konur, svolítið blíðlegar til augnanna flestar hverjar, vottar fyrir kímni hjá sumum en örlar á sorg hjá öðrum og það er ærið misjafnt hvað ég þarf að spjalla lengi við þær áður en ég veit hvort ég á að treysta þeim fyrir mínum innstu hjartans leyndarmálum og pottaplöntum eða hlaupa einsog fætur toga í skjól á bakvið næsta kræklótta tré eða lábörðu klöpp og hringja í Interpol. Ávextirnir eru flestir forboðnir, eggin stropuð og hvergi kjöt að sjá eða fá, en þó sækir hungrið aldrei að á þessum óvissuferðum um frjósöm hugarlönd Hjördísar. Og hafið sem umlykur þau er blátt, svo miklu, miklu blárra en nokkurt haf annað í heiminum. Og himininn yfir þeim ennþá blárri en hafið, blárri en nokkur himinn í öllum heiminum og geiminum. Rauðu blómin eru rauðari, grænu grösin eru grænni og litirnir allir bara einhvernveginn svo miklu litaðri.

Um formin hennar Hjördísar gildir hinsvegar allt öðru máli, þau eru nefnilega svo dýrðlega óformleg að manni getur ekki annað en liðið vel í félagskap þeirra, hvort sem þau eru streit eða skökk, rúnnuð eða rétt hérumbil rétthyrnd. Maður verður samt að passa sig aðeins á þeim því þau eru öll hraðlygin, þessi form, og þykjast gjarnan vera eitthvað sem þau eru svo bara alls ekki eins og maður kemst oftar en ekki að um leið og maður kemur fyrir næsta horn. En það kemur ekki að sök, því þau reynast oftast vera eitthvað allt annað og miklu skemmtilegra í staðinn, eins og til dæmis fordjarfað fjall eða vel þroskuð rjómaterta eða ævisaga átján hálfsystkina í sautján heimsálfum í sextán heimum með óvæntu tvisti í lokin.

Það er auðvelt að villast, jafnvel týnast, ef maður verður fyrir því láni að ramba inná óravegu og ævintýrastíga Hjördísar. Og ekki nóg með að það sé auðvelt, það er bæði skemmtilegt og eftirsóknarvert, því þannig hverfur maður á einu augabragði úr hrímköldu íslensku vori yfir í hlýjan vetur handan hafsins, úr gráma hverdagsins inní leiftrandi litadýrð hins framandi og freistandi; héðan og alla leið þangað ... en hvert, ó hvert?

Ég veit það ekki og vil ekki vita það en ég ? og þið, kæru gestir ? við erum svo ljónheppinn að Hjördís er lögð af stað í enn eina óvissuferðina og hefur boðið okkur að slást í för með sér. Ég veit ekki hvar ég kem til með að enda, og ég veit ekki með ykkur, en ég ætla að þiggja boðið, taka spor í áttina þótt áfangastaður sé ókunnur ? og mikið assgoti hlakka ég til reisunnar!

Ævar Örn Jósepsson

Heimasíða Hjördísar: www.hjordisfrimann.com

Fréttatilkynning

-

Myndir

-

Næsta | Sýningar 2013 | Fyrri