Sýningin Myndlist minjar / Minjar myndlist var sett upp í samstarfi við Írisi Ólöfu Sigurjónsdóttur, forstöðumann Byggðasafnsins Hvols á Dalvík. Á sýningunni gefur annars vegar að líta muni, markaða af sögu, menningu og andblæ liðins tíma, og hins vegar ný listaverk unnin af ellefu listamönnum sem boðið var að vinna þau út frá munum Byggðasafnsins og menningarsögu Dalvíkurbyggðar.
Myndlistarmennirnir eru á aldrinum 28 - 70 ára og vinna þau í ólíka miðla en eiga það sameiginlegt að tengjast Írisi Ólöfu á einn eða annan hátt. Þeir eru Bryndís Hrönn Ragnarsdóttir, Haraldur Jónsson, Magdalena Margrét, Ragnhildur Stefánsdóttir, Sara Jóhanna Vilbergsdóttir, Sari Maarit Cedergren, Svava Björnsdóttir, Victor Ocares, Þór Vigfússon, Þrándur Þórarinsson og Örn Alexander Ámundason.
Á sýningunni er menningararfurinn meðhöndlaður út frá hugmyndum myndlistarmannanna og útkoman er fjölbreytt, spennandi og í einhverjum tilfellum einnig óvænt. Listasafn og byggðasafn eiga vissulega ýmislegt sameiginlegt en það er einnig margt sem aðgreinir þau. Gripum Byggðasafnsins er stillt upp án sögu þeirra eða skýringa, formið eitt stendur eftir.
Sýningarstjóri og höfundur sýningarinnar er Íris Ólöf Sigurjónsdóttir. Sýningin stendur til 7. desember og er opin þriðjudaga - sunnudaga kl. 12-17. Aðgangur er ókeypis.