Tólf tóna kortérið á laugardaginn

Tólf tóna kortérið á laugardaginn
Pamela de Sensi og Vilhjálmur Ingi Sigurðarson.

Laugardaginn 8. mars kl. 15.00-15.15 og kl. 16.00-16.15 verður Tólf tóna kortérið á dagskrá í sal 04 í Listasafninu. Þá munu Pamela de Sensi og Vilhjálmur Ingi Sigurðarson frumflytja Fimm smálög eftir Steingrím Þórhallsson og leika einnig Face to Face eftir Edoardo Dinelli. Aðgangur er ókeypis og öll velkomin.

Pamela og Vilhjálmur eru ötulir flytjendur nýrrar tónlistar, ýmist saman eða sitt í hvoru lagi. Vilhjálmur býr á Akureyri, kennir á trompet við Tónlistarskólann á Akureyri og leikur m.a. með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Pamela kennir á þverflautur af ýmsum stærðum og gerðum við Tónlistarskólann í Kópavogi og er m.a. stofnandi tónlistarhátíðarinnar WindWorks í Reykjavík og á Norðurlandi. Þau leika reglulega saman nýja tónlist úr ýmsum áttum.

Tólf tóna kortérið er samstarfsverkefni Tónlistarskólans á Akureyri og Listasafnsins á Akureyri og hlaut styrki frá Sóknaráætlun Norðurlands Eystra, Menningarsjóði FÍH og Tónskáldasjóði Rúv/Stefs.