19. maí til 8. júlí 2012
SYNTAGMA
Eftir: Magnús Svein Helgason, sagnfræðing og aðjúnkt við Háskólann á Bifröst og Njörð Sigurjónsson, lektor í stjórnunarfræðum menningar við Háskólann á Bifröst.
Syntagma merkir samsetning, eins og gríska stjórnarskráin, en vísar líka til torgs, staðar til að standa á, selja varning (eða sjálfa(n) sig), skiptast á skoðunum, hanga eða hugsa ekki um neitt. Syntagma er yfirskrift sýningar fjögurra listamanna í Listasafninu á Akureyri og plastmála sem hafa ratað þar inn eftir óræðum leiðum. Upphafið og inngangurinn eru verk spænska listmannsinsSantiago Sierra, en þrjá íslenskar listakonur, Hildur Hákonardóttir, Ósk Vilhjálmsdóttir og Steinunn Gunnlaugsdóttir standa að sýningunni með séranum, sem lætur ekki sjá sig.
Syntagma vísar til skipulags, raðar eða kerfis, og er notað í málfræði um setningaliði og samsetningu eininga í skipulagðri uppsetningu sem lýtur ákveðnum reglum. Einingarnar geta verið orð, setningar eða efnisgreinar, en það er mikilvægt þegar syntagmatískar raðir eru skoðaðar að undanskilja alla merkingu, því syntagmatísk kerfi eru merkingarlaus. Innihald finnum við aðeins þegar við skoðum ?paradigma?, viðtektina eða samhengið, þar sem orðin, forskeytin og setningarnar fá merkingu eftir stöðu sinni í kerfinu og aðgreiningu frá öðrum hugtökum og efnisgreinum.
Sýningin Syntagma er á vissan hátt slík samsetning. Uppröðun verka, mynda og plastmála, sem sett eru saman í skipulagi myndlistarsafnsins: hlutur í þessu rými, annar í augnhæð, sá þriðji í framhaldi af hinum og svo framvegis. Allt í röð og reglu og á sínum stað þannig að uppsetningin trufli ekki gestinn í ferð sinni á milli herbergja. Safnið rammar inn sýninguna og passar að listin flæði ekki út í samfélagið fyrir utan, út yfir bakka sína, renni ekki út í sandinn. Plastmálin eiga þó ekki heima inni í kerfi safnsins. Þau tilheyra öðrum veruleikum og öðrum kerfum: fjölmiðla, stjórnmála og markaðssetningar. Þau eignuðust líf í útvarpsþætti þar sem þau voru boðin upp, en frægðin kemur af vörum stjórnmálamanns sem markar málin með varalit, og þegar plastmálin eru færð inní bókhald Sjónlistamiðstöðvarinnar, eru kaupin undir liðnum markaðsmál. Kerfi stjórnmálanna og markaðarins gerði tilraun til að endurheimta málið þegar Samband ungra sjálfstæðismanna bauðst til að kaupa plastmálið af Sjónlistamiðstöðinni, og það á töluvert hærra verði en Sjónlistamiðstöðin hafði greitt fyrir það. Enda segja lögmál kapítalismans að verð skuli hækka því oftar sem vara skiptir um hendur. Hvort plástmálið sjálft hefur einhverja merkingu, þá aðra en að hafa mætt vörum forsætisráðherra, skal ósagt látið, en það er ekki hægt að neita því að það hefur verið á syntagmatísku ferðalagi um ýmis merkingarkerfi.
KERFI
?Innbyrðis samruni og aðskilnaður æðanna er helsta orsök þess að lauf taka á sig margbreytileg form.? (texti HH)
Það má segja að öll kerfi byggist á einhverskonar flokkun. Samskonar hlutir eða fyrirbæri eru flokkuð saman og skilin að frá heiminum í kring, öðrum fyrirbærum sem heyra undir önnur kerfi. Um leið eru fyrirbærin felld undir reglur og lógík kerfisins: Þau hafa einhverja sameiginlega eiginleika sem gera það að verkum að þau geta lotið sömu lögmálum, sömu reglum. Um leið stýrir kerfið því hvaða merkingu við getum lagt í viðkomandi fyrirbæri. Kortlagning lífkerfisins og dreifikerfi neysluvara eru dæmi um slík flokkandi kerfi. Siðareglur samfélagsins eru enn annað kerfi. Það er sjaldnast nokkuð í eðli fyrirbæranna sem segir að þau eigi að lúta sömu lögmálum og önnur fyrirbæri, hvort þau eiga heima í þessu kerfi frekar en einhverju öðru. En um leið og við flokkum þau saman, setjum inn í kerfi með öðrum fyrirbærum, taka þau að lúta lögmálum þess.
Því altækari sem kerfi eru, því stærra svið mannlífsins, náttúrunnar eða efnisheimsins sem þau ná yfir, eru þau líka alræðiskenndari. Þau hafa tilhneigingu til að þröngva annarri merkingu og annarri lógík út, afneita henni og loka á hana. Þetta sést vel á því hvernig markaðskerfið afneitar öðru siðferði en sínu eigin, öðrum gildum og öðru gildi en skiptagildinu. Eina mælistikan eru peningarnir, verðgildið. Verðgildi fólks, líkama, er það sem markaðurinn er tilbúinn til að borga. Með sömu lógík peningakerfisins eða kapítalismans er verðgildi eða virði náttúrunnar aðeins mælt í peningum: Ósnortið víðerni er einskis virði nema það sé búið að koma því í verð, kaupa það og selja og setja á það verðmiða. Þangað til er það ekkert annað en strá og rofabörð. Vannýtt auðlind. Fljót og gljúfur eru merkingarlaus nema þau þjóni raforkukerfinu. Það er ekki fyrr en hægt er að hlutgera náttúruna, dæla henni inn í kerfi kapítalismans, sem hún fær verðgildi í verðmætakerfi kapítalismans. Þá er hægt að kaupa og selja aðgang að henni.
Kapítalisminn afneitar þannig tilvist annarra merkingarkerfa, annarra sviða veraldarinnar. En það gerir listin í raun líka, því hún lætur yfirleitt eins og peningahagkerfið sé ekki til: Við fáum ekki að sjá öll þau peningaskipti sem listin reiðir sig á. Við erum ekki meðvituð um þau flóknu sambönd, og alla þá keðju peningaskipta sem liggur að baki listaverkinu. Peningarnir eru heldur ekki til, þeir eru bara hugsmíð, tölur á blaði sem ferðast um í tölvukerfum.
PENINGAR
Eitt af því fyrsta sem slær mann þegar verk Santiago Sierra eru skoðuð er hversu mörg þeirra virðast snúast um peningaskipti og verkkaup af einhverjum toga. Þessi viðskipti, og þá sérstaklega peningagreiðslan, eru í forgrunni margra verkanna. Sierra ræður fólk til að taka þátt í gjörningunum. Í sumum verka sinna sýnir hann peningagreiðsluna, sérstaklega þar sem hluti myndskeiðsins er upptaka af einhverjum að telja og afhenda peninga. Við horfum á peningana skipta um hendur eftir að við erum búin að horfa á þátttakendur gjörningsins inna af hendi einhverja undarlega og merkingarlausa iðju. En í öðrum verkum erum við aðeins upplýst um peningagreiðslurnar í texta sem fylgir verkinu. Peningaskiptin eru þar kynnt sem upphaf og aflvaki verksins. Peningarnir koma öllu af stað.
Sum verka Sierra eru reyndar ekkert annað en sviðssetning kapítalískrar spákaupmennsku. VerkiðKaup á verðlaunagrip (2007) fólst þannig í því einu að Sierra keypti verðlaunagrip sem listakonan Regina Galindo hlaut á Feneyjatvíæringnum árið 2005 ?í þeim tilgangi að selja hann aftur með hagnaði?.
Fyrir Sierra eru peningaskiptin ekki bara óumflýjanleg forsenda listsköpunarinnar, líkt og peningaskiptin sem eiga sér stað þegar listamaðurinn leigir vinnustofu eða fer út í búð til að kaupa efni til listsköpunarinnar, liti, pappír eða striga, heldur eru þau gerð að hluta listaverksins sjálfs. Upphafin jafnvel. Stillt upp sem miðpunkti verksins. Ráðning fólks til að taka þátt í gjörningnum er ekki bara nauðsynleg, en óáhugaverð forsenda gjörningsins heldur mikilvægur hluti hans.
Sierra lætur hverju verki fylgja langan texta þar sem við erum upplýst um hvað þáttakendum var borgað og hvernig þeir voru ráðnir til starfa og hvaða fólk var ráðið til að vera þátttakendur í listsköpuninni. Með þessu er Sierra að segja okkur að það sem fólkið gerir, hvort sem það er að sitja inni í kassa, hlusta á messu páfa eða ýta steinblokkum, skiptir ekki minna máli en hvaða fólk þetta er og hvað því var borgað fyrir að ?vinna? þau undarlegu verk sem Sierra ræður þau til að vinna. Því auðvitað verða þátttakendurnir í listaverkunum allir ?starfsmenn? Sierra um leið og hann borgar þeim og framlag þeirra einhverskonar ?vinna?.
Sierra smættar þannig samband sitt við þátttakendur í hrein viðskipti en eftirlætur áhorfandanum að geta sér til um raunverulegan ásetning launþegans. Gerum við hvað sem er fyrir pening? Hefðum við ekki áhuga á að taka þátt í listgjörningi frægs listamanns þó við fengjum ekkert borgað? Breytir það einhverju hvort fólki er borgað eða ekki? Hvað værum við tilbúin að gera fyrir einhverja merkingu í líf okkar? Fyrir fimmtán mínútur af frægð? Listaverkin fjalla því ekki nema að hluta til um athafnirnar sem sýndar eru á filmunni. Þau fjalla líka um þau efnahagslegu tengsl sem liggja til grundvallar þess sem er að gerast og vekja spurningar um hvata og merkingu.
Santiago Sierra hefur sjálfur sagt að hann sé í verkum sínum að skoða samband listarinnar og peninga, eða peningahagkerfisins og kapítalismans. Hvernig þessir tveir heimar, eða kannski frekar þessi tvö kerfi peninga og lista, tengjast og hvernig þau vinna saman eða kallast á. En hann er líka að leika sér með það hvernig þessi tvö kerfi skapa merkingu með ólíkum hætti og hvernig þau geta falið merkingu. Eða siðferðislegar spurningar og inntak.
VALDAÓJAFNVÆGI
Syntagma, er heiti á torginu fyrir framan þinghúsið í Aþenu. Syntagmatorg hefur verið miðpunkturinn, aðalleiksvið mótmælanna í Grikklandi að undanförnu. Syntagma þýðir stjórnarskrá og Syntagmatorg ?Stjórnarskrártorg?. Sem minnir á hlutverk stjórnarskrár sem skjalfestingu á réttindum borgaranna og jafnræði. Jafnræði allra borgaranna, sem á blaði eru þá allir jafnir fyrir lögum þó þeir séu það auðvitað alls ekki í lífinu. Til þess er misskipting fjármuna, valda og möguleika of mikil. Jafnræði er fáránlegt hugtak í því samhengi. Mótmælaaldan sem gengið hefur yfir löndin í kringum Miðjarðarhafið, Evrópu og Norður Ameríku hefur fundið sér samastað á slíkum torgum og Syntagmatorg er tákn slíkra torga. Það er Austurvöllur þeirra Grikkja, í hjarta Aþenu ?vöggu vestrænnar siðmenningar? og rétt við agora allra agora. Syntagmatorg er staðurinn til þess að ræða málin og skiptast á skoðunum og þar sem lýðræðið fléttast svo þétt við markaðinn að ekki sér mun á. Kaffihúsin ramma inn torgin og lottómiðasalarnir bjóða von um annað líf á meðan stemmningin fjarar úr tjaldborgum mótmælendanna.
Þann 4. apríl síðastliðinn ákvað 77 ára gamall maður að binda enda á líf sitt með skammbyssu á Syntagmatorgi. Í sjálfsmorðsbréfi mannsins útskýrir hann það efnahagslega öngstræti sem hann upplifði sig í, að hann gæti ekki lengur sinnt grunþörfum sínum með sæmd. Hann gæti ekki borðað fyrir þann pening sem hann fengi í ellilífeyri þrátt fyrir að hafa unnið allt sitt líf án þess að nokkru sinni að fá félagslega aðstoð frá ríkinu. Í sjálfsmorðsbréfinu hvatti hann til aðgerða gegn peningavaldinu og spilltum stjórnmálamönnum. Tveimur kerfum sem höfðu afneitað merkingu, mannlegri reisn gamla mannsins og annarra í hans sporum, fólki sem hefur verið ýtt út á jaðarinn.
Í verkum sínum er Santiago Sierra iðulega að fjalla um valdaójafnvægi sem felst óhjákvæmilega í peningaskiptum. Yfirleitt ræður Sierra ódýrt vinnuafl til að taka þátt í gjörningunum, farandverkamenn, ólöglega innflytjendur, vændiskonur eða aðra sem standa ýmist á jaðri eða utan samfélagsins. Verkin fjalla líka um hið hnattræna valdaójafnvægi þar sem hinu drottnandi norðri er stillt upp andspænis undirokuðu suðri.
Kjarninn í drottnun og kúgun eða misbeitingu er sú að sá sem drottnar, kúgar eða misbeitir valdi sínu lýsir sig ábyrgðarlausan. Hann afsalar sér ábyrgð á hlutskipti þess sem hann kúgar eða misbeitir. Kerfi eins og kapítalismi löggilda svo þetta ábyrgðarafsal, fela valdaójafnvægið. Samskipti þess sem kúgar og þess sem er kúgaður er smættað niður í peningaskiptin. Með peningaskiptunum kaupir verkkaupinn eða vinnuveitandinn sig frá ábyrgð á því kúgunarkerfi og valdaójafnvægi sem neyðir t.d. farandverkamanninn eða vændiskonuna til að selja aðgang að líkama sínum.
Sierra gætir sín á að fylgja öllum reglum kerfisins. Þegar hann greinir frá því í löngu máli hvernig hann ræður þátttakendur, hvað hann borgar þeim og hvernig þeir svo taka þátt í verkinu er hann að lýsa því fyrir okkur að hann hafi fylgt öllum reglum kapítalismans og að hann hafi gætt sig á að viðhalda valdajafnvægi kapítalismans. Þessar löngu lýsingar og útskýringar á tilurð verkanna eru nokkurskonar ?vottorð? fyrir því að Sierra hafi fylgt öllum reglum markaðshagkerfisins um hlutgervingu og kaup á aðgengi að líkama fólks: Hann borgar vændiskonum gangverð munnmaka, farandverkamönnum gangverð lýjandi daglaunavinnu.
Sierra hefur verið gagnrýndur harðlega fyrir verk sín. Hann hefur verið sakaður um að misnota fólk og niðurlægja. Hann hegði sér sjálfur eins og hinn andstyggilegasti arðrænandi og kúgandi nýlenduherra, karldólgur og dóni. Hann noti fátækt fólk og kúgað sem efnivið, borgi þeim smánarlaun en uppskeri sjálfur frægð, frama og auð.
Sierra hefur svarað þessari gagnrýni. Það eina sem hann geri sé að setja kapítalismann á svið með öllum sínum fáránleika, og það sé fáránlegt að gera hann persónulega ábyrgan fyrir hinu kapítalíska kerfi. Gagnrýnin einkennist af veruleikafirringu og forréttindum þeirra sem hafa aldrei þurft að beygja sig undir ægivald kapítalismans. Sierra segist þannig ekki vera að beita neinni kúgun sem viðgangist ekki á hverjum einasta degi allt í kringum okkur, og það sé í raun ómerkileg hræsni að gagnrýna hann, sendiboðann, meðan við látum kerfi óréttlætis og kúgunar óátalin.
HLUTGERVING
Ekki fyrir alls löngu bárust fréttir af því að lögregla á Spáni hefði upprætt glæpahring sem stundaði skipulagt hórmang í stórum stíl. Það sem gerði þessa fréttir óvenjulega ógeðfelldar og sláandi var að konurnar sem voru fórnarlömb mansals höfðu verið merktar glæpagenginu. Dólgarnir höfðu tattúverað þær með eftirlíkingu af strikamerki og upphæð. Upphæð sem glæpamennirnir töldu konurnar skulda þeim. Strikamerki til að minna þær á að líkamar þeirra væru ekki þeirra eigin, þeir væru söluvarningur, ætlaðir til þess að vera keyptir og seldir. Konurnar skyldu muna að þær væru eign glæpamannanna. Og þó konurnar hafi sloppið úr klóm glæpamannanna, þó þær gætu hafið nýtt líf, hafa þær verið merktar með varanlegum hætti sem söluvarningur.
Það er varla hægt að hugsa sér algerri hlutgervingu.
Í verki sínu 160 cm löng lína tattúveruð á 4 manneskjur (2000) setur Sierra á svið viðskipti sem eru óþægilega lík því ómanneskjulega ofbeldi sem spænska lögreglan afhjúpaði. Sierra réði fjórar spænskar vændiskonur sem voru heróinfíklar til þess að láta tattúvera á sig svarta línu í skiptum fyrir einn heróinskammt. Í lýsingu Sierra með verkinu útskýrði Sierra að greiðslan sem vændiskonurnar fengu hafi jafngilt gangverði fjögurra munnmaka götuvændiskvenna á Spáni.
Þó Sierra sé að velta fyrir sér hlutgervingu og benda okkur á hvernig hún sé allt í kringum okkur, er hann alls ekki að segja að öll hlutgerving sé eins. Hlutgerving farandverkamannsins sem situr í kassa, fúngerar sem stoð undir gallerívegg eða viðar og malbiksform er ekki hin sama og vændiskvennanna sem eru tattúveraðar.
Að vinnudegi loknum stíga farandverkamennirnir út úr kössunum sem þeir sátu í að létta af sér byrðunum sem þeir báru. Viðskipti Sierra við vændiskonurnar skilja hins vegar eftir varanlegt mark á líkama þeirra.
Það sem Sierra virðist vera að segja er að það sé mikilvægur grundvallarmunur á því að kaupa aðgang að líkama vændiskvenna og farandverkamanna, eða að það sé ekki sama hverskonar aðgangur er keyptur. Í öllum tilfellum fær Sierra þó aðgang að líkama fólksins, hann fær að ráðskast með hann eins og honum þóknast og eins og hann væri hans eign eða dauðir hlutir. Sierra leikur sér að því að hlutgera þátttakendurna, launþegana, nota þá eins og hluti, vélar, viðföng. En með því að merkja líkama vændiskvennanna varanlegu marki er Sierra að minna á (sviðsetja) valdbeitinguna og ofbeldið sem býr í viðskiptunum.
Sierra er þó ekki að fella neinn dóm. Þvert á móti. Sierra afsalar sér allri ábyrgð enda eru það forréttindi listamannsins. Áhorfendur þurfa sjálfir að meta og dæma.
SIÐFERÐISDÓMAR
Annað einkenni verka Sierra er margræðni þeirra. Myndskeiðin eru grá, ekki svart-hvít. Skilaboð þeirra allra eru óræð.
Óræð og jafnvel merkingarlaus. Öll sú iðja sem Sierra borgar fyrir að sé unnin virðist í fljótu bragði vera merkingarlaus, tilgangslaus og jafnvel stefnulaus. En fyrir vikið kemst hlutgervingin sjálf og valdaójafnvægi viðskiptanna í forgrunn. Hún verður að merkingu verksins. Þannig dregur Sierra augu okkar að því hvernig kapítalisminn felur alla jafna hlutgervingu fólks. Hvernig kapítalisminn felur skuggahliðar sínar, arðrán, atvinnuleysi eða misskiptingu. En hún er þarna engu að síður, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Farandverkamenn og ólöglegir innflytjendur vinna niðurlægjandi vinnu fyrir lúsarlaun og vændiskonur eru strikaðar út.
Eins og fyrr segir er þó ljóst að Sierra aðhyllist ekki róttæka siðferðilega afstæðishyggju eða móralskan níhílisma. Enda væri hann með því að fella alræðiskenndan siðferðisdóm. Í slíku afstöðuleysi felst afstaða: Allt er leyfilegt. Þrátt fyrir hið stórkarlalega NO, sem er yfirskrift heimsreisu Sierra sem kom hingað til lands, skýtur Sierra sér í raun undan því að fella neina afgerandi dóma fyrir okkur: Það erum við, áhorfendurnir, sem eigum að fella dómana.
Einhverskonar dómar og refsingar eru viðfangsefni fjölda verka Sierra. Hann hefur t.d. gert röð verka þar sem hermenn úr nýlegum stríðsátökum stilla sér upp með andlitið út í horn, t.d.Hermenn úr stríðunum í Kambódíu, Rwanda, Bosníu, Kósóvó, Afghanistan og Írak standa úti í horni (2012) og Hermaður úr stríðinu í Afghanistan stendur úti í horni (2011). Hermennirnir eru að taka út einhverskonar refsingu. En fyrir hvað? Höfðu hermennirnir framið einhverja glæpi? Brotið af sér? Eða var glæpur þeirra sá einn að þeir höfðu sogast upp í kerfi stríðsreksturs og heimsavaldastefnu? Hvað með þátttakendur í verkinu Þeim sem var refsað (2006): Þjóðverjar sem fæddir voru fyrir 1939 voru fengnir til að standa upp við vegg, hálftíma í senn, þar sem þeir tóku út einhverskonar refsingu fyrir samsekt sína í glæpum þýsku þjóðarinnar.
Í öðrum verkum setur Sierra á svið uppákomur sem líkjast refsingum en eru enn óræðari.Anarkistarnir (2006), þar sem átta ?herskáum anarkistum? var borgað (100 evrur hverjum) fyrir að sitja undir miðnæturmessu Páfans á jóladag. Anarkistarnir, sem eru vitaskuld ?sekir? um að hafa hafnað leikreglum hins (smá)borgaralega og kapítalíska samfélags, voru auk þess látnir bera svarta skammarhatta, Capirote, sem í hinum spænskumælandi heimi eru merki hins seka.
En sú staðreynd að peningar skipta um hendur breytir merkingu sviðsetningarinnar. Fyrst herskáu anarkistunum er borgað fyrir að taka út refsingu hættir refsingin að vera refsing. Aðrir þátttakendur í skammarverkum Sierra, hermenn eða Þjóðverjar fæddir fyrir 1939 höfðu tekið þátt í verkunum sjálfviljugir og engir peningar skiptu um hendur.
Um leið og við fréttum að peningar skipta um hendur lítum við öðrum augum á þátttakendurna og mótivasjónir þeirra. Frjáls vilji þeirra hverfur. Af hverju göngum við út frá því að farandverkamennirnir, ólöglegu innflytjendurnir og vændiskonurnar taki þátt í verkum Sierra sem (arðrænt eða kúgað) vinnuafl? Getur ekki verið að þetta fólk taki allt þátt á eigin forsendum. Það vilji einfaldlega taka þátt í listsköpun, peningagreiðslan sé engan veginn aðalatriðið, heldur listin?
STEINUNN GUNNLAUGSDÓTTIR
Jesús segir við hann: ?Sá sem laugast hefur, þarf ekki að þvost nema um fætur. Hann er allur hreinn. Og þér eruð hreinir, þó ekki allir.?
Hann vissi, hver mundi svíkja hann, og því sagði hann: ?Þér eruð ekki allir hreinir.?
Í Jóhannesarguðspjalli eru hinum dramatísku atburðum lýst þegar Jesú er svikinn af einum af sínum nánustu samstarfsmönnum Júdasi. Þetta eru mótsagnakennd augnablik sem trúaðir hafa þurft að skilja og útskýra. Því þó frelsarinn sjái allt fyrir leiðir hann atburðarásina í átt til síns eigin kvalafulla dauðdaga á krossinum og þjáninguna, sem af textanum að dæma er nær óbærileg, leiðir hann sjálfur yfir sig. Jesú notar þennan performans til þess að greina þá sem honum eru velþóknanlegir frá hinum sem ekki hljóta náðina. Það þarf að trúa á upprisuna til þess að lenda inni en aðrir standa fyrir utan. Því það eru ekki allir hreinir.
Verk Steinunnar Gunnlaugsdóttur Þú skalt ekki ? Kona ársins er tilraun í mórölskum níhilisma. Er ekki öll umbun eins? Erum við ekki alltaf að selja okkur fyrir eitthvað?
Haldinn verður hreinsunardagur þann 05. maí þar sem öllum konum (og körlum) sem einhvern tímann á lífsleiðinni hafa þegið umbun ? s.s. áfengi, umhyggju, pening, skutl, meðmæli, stöðuhækkun, stéttafærslu, öryggi o.s.frv. ? í skiptum fyrir kynmök, verður boðið að þvo burt syndir sínar, segja skilið við fyrra líf og hefja nýtt, göfugra og hreinna líf.
Áhugasamir hafið samband í síma 8945336.
Steinunn auglýsir syndaaflausn eins og um hverja aðra spa-meðferð væri að ræða, og með markaðssetningunni spyr hún hvort ekki séu allir óhreinir? Eða erum við öll hrein? Er syndin tilbúningur sem gagnast til að stjórna einstaklingum og þar með samfélaginu öllu?
Steinunn framkvæmir hreinsunarathöfn þar sem andlitslausar hendur þvo af syndir hins afvegaleidda kvenlambs. Steinunn safnar svo óhreinu baðvatninu saman, sýður það niður og setur í ílát sem hún raðar saman og útnefnir ?Konu ársins?. Á loka degi sýningarinnar hyggst hún treysta kirkjunnar mönnum á Akureyri fyrir þessari konu.
Á undanförnum árum hefur Steinunn unnið ein, og í félagi með listahópum eða sem hluti tvíeykja, listaverk, gjörninga og innsetningar sem sviðsetja með einum eða öðrum hætti kapítalismann og það sem við getum kallað ?kerfið?. Oft eru verkin árásir á stofnanir og gildi mannfélagsins, á rök og reglur stigveldisins, markaðshyggjunnar og stjórnmálanna.?
ÓSK VILHJÁLMSDÓTTIR
Í hinu þekkta riti Orðræða um aðferð frá árinu 1637 færir heimspekingurinn René Descartes okkur grundvallar hugmynd nútímans. Eftir að hafa velt fyrir sér hvort hann sé að dreyma að hann sé blekktur af illum anda og heimurinn sé tilbúningur, sér hann að það þurfi þá einhvern til þess að blekkja. Meira en það, hann kynnir Sjálfið með listilegri sönnun fyrir því að hann sé annað en líkami sinn og umhverfi. Sjálfið sé þenkjandi andi (hugur eða sál) en líkaminn sé efnislegur og vélrænn.
Það sem Descartes gaf okkur var ekkert minna en sú hugmynd að maðurinn, einstaklingurinn ?ég?, sé aðskilinn frá hinum lögmálsbundna efnisheimi líkama, náttúrunnar og dýranna. Og um leið gefur Descartes okkur vald í krafti þessarar aðgreiningar, leyfi til þess að kryfja og kanna hinn efnislega ytri heim, stjórna honum og nýta. Með annan fótin í gall- og vessakenningum Galens tekur Descartes síðan til við að lýsa starfsemi hjarta og æðakerfisins með áherslu á hið vélræna eðli þess og tengir saman á áhugaverðan hátt tilfinningalíf mannsins og hita blóðsins. Draumarnir fæðast í hitagufum, melankólían af svörtu galli, en samspilið við andann verður alltaf dálítið stirt því tengslin eru endanlega rofin.
Í verki Óskar Vilhjálmsdóttur PUMPA (2012) sjáum við inní æðakerfi samtímans. Háræðanet sem dreifir blóði neyslusamfélagsins, mjólk og olíu, í kerfi sem er að mestu hulið flestum okkar og fjarlægt þó við töppum af því á hverjum degi. Svo aðskilið frá hinu daglega að með því að líta á það setjum við veruleikann á hliðina. Ósk tekur myndir, hugmyndir og tálmyndir, úr sínu náttúrulega umhverfi, út úr heiminum, þannig að veruleikinn verður berari á eftir, jafvel hættulegri. Andspænis því sem er svo venjulegt, hugmyndir sem koma og fara, ímyndir sem virðast hversdagslegar á yfirborðinu en birtast nú í nýju ljósi. Við erum háð þessu dreiradreifikerfi eins og sjúklingur með næringu í æð.
Líkt og í vísindaskáldskap eru slöngurnar tengdar við kjarnann sem aldrei sést. Martröð sem viðheldur blekkingunni, veruleikinn er bara ímyndanir og avatarar, og draumurinn er það sem við viljum ekki vakna upp af. Neyslusamfélagið og samspil þess við náttúruna eru megin stef þessa afhjúpunarleiks en óhuggnalegt vald peninga, tækni og framfarahyggju er skugginn sem skerpir línurnar. Þannig leikur Ósk sér að mörkunum milli þess krúttlega og skelfilega þannig að veruleikinn verður ekki samur eftir. Það eru komnir brestir í drauminn.
Ósk Vilhjálmsdóttir unnið með ólíka miðla og tækni, málverk, myndbönd, innsetningar og þátttökuverk. Mörg þessara verka hafa sterka samfélagslega skírskotun, ákall um vernd nátttúrunnar og gagnrýni á efnishyggju. En fyrst og fremst eru verk Óskar vel útfærð og sannfærandi skoðun á samspili valda og ímynda listheimsins. Gagnrýni sem sveiflast frá draumkenndum órum um fjölskyldulíf og ?eitthvað annað?, yfir í martraðir skítlands og óljósrar ógnar af hjónabandi peningavalds og pólitíkur. Skilaboðin eru ekki áróður, ekki banal, heldur áminning um að við erum ekki aðskilin frá heiminum og náttúrunni, heldur tökum við ábyrgð á og höfum möguleika á að breyta. Að við erum ekki ein og að við þurfum að minna okkur á að kýrin gefur okkur ekki mjólkina, við tökum hana frá henni.
AUÐUR HILDUR HÁKONARDÓTTIR
Getnaður með hunangsvökva
Innbyrðis samruni og aðskilnaður æðanna er helsta orsök þess að lauf taka á sig margbreytileg form. (texti HH)
Rómantíska stefnan í evrópskum listum var pólitískt viðbragð við iðnbyltingunni og hinni vísindalegu rökvæðingu náttúrunnar. Síðari tíma skilningur á hinu rómantíska viðhorfi sem ótengdu samfélagi og hugsjónabaráttu, með áherslu sinni á upphafningu snillingsins, fegurðarinnar og handan heimseiginleikum listaverksins, eru því í besta falli sögulegur miskilningur. Líklegra er þó að rómantíkin hafi orðið vöruvæðingu listarinnar að bráð en markaðskerfið og kantísk aðskilnaðarfagurfræði hafa lengi verið nánir ferðafélagar. Rómantíkin í sjálfri sér er hinsvegar róttækt viðhorf sem leggur áherslu á tengsl manns og náttúru og ekkert er eins mikil ógnun við verkefni nútímavæðingarinnar.
Hildur Hákonardóttir hefur um árabil spurt gagnrýnna spurninga og verið óhrædd að fjalla um hugsjónir kvenna- og réttlætisbaráttu í list sinni. Frumlegt efnisval og leikur með landamæri lista og handverks hafa ögrað þeim kalla-kúltúr sem ríkir enn í listabransanum, auk þess að benda á hætturnar við hernaðarbrölt og neysluhyggju. Á síðari árum hefur Hildur lagt meiri áherslu á ritstörf samhliða listsköpun sinni en áherslan á tengsl okkar við náttúruna hefur orðið megin leiðarstef hugsjónabaráttunnar.
Í innsetningu sinni á þessari sýning sækir Hildur innblástur í sjálfa lífsbókina sem opnar okkur sýn inní órætt skipulag hinna flóknu kerfa plönturíkisins. Af vörum Goethe og hinnar frum-rómantísku vísindahyggju upplýsingarinnar koma lýsingar á ástarlífi jurta, skiptingu stilka og getnað með hunangsvökva. Hið mjúka líf birtist í ljóðrænni og viðkvæmri útskýringu sem þó á svo langt í land að ná hinni kræklóttu mýkt fegurstu fyrirbæra jarðargróðursins. Okkur er hinsvegar gefið örlítið örlítið bragð á tungubroddinn af því sem gæti verið, innsýn í heim sem er jafn fjarlægur og hann er heillandi í ósnertanleik sínum. Lýsingarnar á blóði plantnanna, æðakerfi þeirra og vessalífi, gefa þannig tálsýn um skiljanleika en myndirnar sem við gerum okkur af þeim eru þó aðeins skissur í besta falli, tilraunir við útlínur þess sem gæti orðið.
Það er einfalt í ljósi fyrri verka og ferils Hildar að líta á innsetninguna sem lífpólitíska yfirlýsingu, ákall til samtímans að líta sér nær og til náttúrunnar. Þannig stilla verkin sér upp gegn hörku markaðsafla, tækni og peningavalds og heimta að við lítum innávið og hugleiðum frumforsendur fegurðarinnar sem blasir við í frjósamri jörðinni. En það er hugsanlega einföldun. Útlínur plantanna og skissur í texta og teikningum eru tilraun um kjarna mannsins og hugmyndarinnar um fegurð. Vissulega standa formin einföld og nakin en það er fyrst og fremst upplýsti maðurinn, karlinn (Goethe), sem stendur berskjaldaður frammi fyrir hinum femínísku formum. Styrkur hinna munaðarfullu forma afhjúpar feimni karl-uglunnar gagnvart hinu hreina vessalífi smágróðursins. Í tilraun sinni til þess að flokka og rökræða lífræn mökunarkerfi plantna er hann ennþá hjákátlegur.