Ný og splunkuný


Ný og splunkuný
Verk úr safneign Listasafnsins á Akureyri
04.02.2023 – 14.05.2023
Salir 02-05

Því ber að fagna að nú getur Listasafnið á Akureyri aftur hafist handa við kaup á verkum í safneignina. Sýningin Ný og splunkuný gefur yfirlit yfir verk sem safninu hafa verið gefin á síðustu árum en hafa ekki verið sýnd og splunkuný verk sem safnið hefur keypt. 

Eitt af meginhlutverkum listasafna er að safna myndlist og miðla safneigninni, enda mikilvægt að safna með reglubundnum hætti listaverkum sem endurspegla listasöguna. 

Í söfnunarstefnu Listasafnsins segir meðal annars: „Söfnunarsvið Listasafnsins á Akureyri er allt landið en jafnframt leggur safnið sérstaka áherslu á söfnun verka sem tengjast Norðurlandi.“ Móttaka gjafa takmarkast af því markmiði að Listasafnið byggi upp heillega og markvissa safneign. Safnstjóri og fulltrúar í Listasafnsráði fjalla um og taka ákvarðanir er varða móttöku gjafa og um kaup á nýjum verkum. Ákvörðunin byggir á söfnunarstefnu safnsins, markmiðum þess og stöðu safneignar á hverjum tíma. 

Verk eftirtalinna listamanna eru á sýningunni:

Agnieszka Sosnowska (f. 1971)
Björg Eiríksdóttir (f. 1967)
Gísli Guðmann frá Skarði (1927-1980)
Guðmundur Ármann Sigurjónsson (f. 1944)
Hafdís Helgadóttir (f. 1949)
Hafliði Hallgrímsson (f. 1941)
Jan Voss (f. 1945)
Jónborg Sigurðardóttir – Jonna (f. 1966)
Karl Guðmundsson (f. 1986)
Kristín K. Þórðardóttir Thoroddsen (1885-1959)
Lilý Erla Adamsdóttir (f. 1985)
Níels Hafstein (f. 1947)
Sigtryggur Bjarni Baldvinsson (f. 1966)

Sýningarstjóri: Hlynur Hallsson.