ÞÓRA SIGURÐARDÓTTIR



ÞÓRA SIGURÐARDÓTTIR
TÍMI – RÝMI – EFNI
17.05.2025 – 07.09.2025
Salir 02 03 04 05

Á sýningunni má sjá ný verk sem eiga rætur í áratugalöngum áhuga Þóru Sigurðardóttur (f. 1954) á efni, rými og teikningu. Líkaminn, næmi hans, efni, staða og hreyfing eru mikilvæg viðfangsefni Þóru. Í verkunum beinist athyglin að náttúruumhverfi lífverunnar: kalki, kolum, málmum, lífrænum himnum, trefjum og úrgangi.

„Við teiknum síðan breiddar- og lengdargráður til að henda reiður á óreiðukenndu fálmi tilveru okkar, setjum þær fram á kortum, teiknum plön, skráum dagbækur, hönnum byggingar; hrærumst innan þeirra og utan.“

Þóra Sigurðardóttir fæddist og ólst upp á Akureyri. Hún lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1981 og framhaldsnámi við Det Jyske Kunstakademi í Danmörku 1991. Hún hefur sýnt víða á Íslandi og erlendis og m.a. hélt hún einkasýningu í Listasafni Íslands 2024. Verk Þóru eru í eigu opinberra safna og einkasafna hérlendis og erlendis, s.s. Listasafns Íslands, Nýlistasafnsins, Listasafns Reykjavíkur, BBK Print Collection í Berlín og Metropolitan Museum of Art Paper/Print Collection í New York.

Ann-Sofie Gremaud skrifar texta um sýninguna. Verkefnið er styrkt af Myndlistarsjóði, Ferðasjóði Muggs, Myndstefi og Starfslaunasjóði myndlistarmanna.