RÓT
Listasafnið á Akureyri, Ketilhús, 20. júní - 19. júlí 2015
Hvað gerist þegar hópur skapandi einstaklinga kemur saman til að vinna að sameiginlegri hugmynd? Ómögulegt er að sjá það fyrir, en niðurstaðan verður áhugaverð. RÓT varð til einn vetrardag á sameiginlegri vinnustofu þriggja listamanna; Freyju Reynisdóttur, Karólínu Baldvinsdóttur og Jónínu Bjargar Helgadóttur. Þær langaði að nýta margföldunaráhrifin sem gott samstarf framkallar.
Listamenn úr ólíkum listgreinum sameinast í gerð verka sem eru þróuð á staðnum með ólíkum áherslum. Verkin eru unnin samdægurs og sýnd. Hver dagur hefst á hugflæði þar sem allar hugmyndir eru viðraðar þangað til rótin, sem allir geta unnið út frá, er fundin. Sýningin þróast og breytist því fyrstu tvær vikur verkefnisins þar sem verk eru unnin annan hvern dag og í aðrar tvær vikur verða þau til sýnis. Allt ferlið er opið gestum og gangandi. Velkomin.