Thora Karlsdottir


Thora Karlsdóttir
Skilyrði: Frost 
Listasafnið á Akureyri, vestursalur, 7. - 12. febrúar 2015

Snjór verður ekki til án frosts. Minningar um barnslega eftirvæntingu í uppvextinum á Akureyri reyndust kannski ekki einungis barnslegar heldur hughrif persónuleikans. Meðfædd og í blóð borin. Að elska snjó, óháð aldri og þroska. Eftirvæntingin er alltaf sú sama. Biðin eftir fyrstu snjókomu vetrarins, allt stendur og fellur með frostinu. Það er eitthvað töfrandi og fallegt við snjóinn. Óútreiknanlegur, óáreiðanlegur, allt verður hvítt. Hann breytir landslaginu, það verður slétt og fellt. Skapar nýja fleti, veitir birtu og býr til skugga. Nýjar myndir birtast og breytast á meðan þær gömlu leggjast í dvala. Létt og loftkennt snjókornið fellur til jarðar. Kalt loftið og vatnið hafa getið af sér afkvæmi sem kallar strax á athygli og hreyfingu. Það er auðvelt og freistandi að nýta snjóinn í listsköpun, ótal tækifæri og möguleikar. Lifandi listaverk sem er síbreytilegt – tilvist með skilyrði um frost. Þurrt-matt, hart-glans, mjúkt-blautt.

Thora Karlsdóttir er útskrifuð frá Ecole d‘Art Izabela B. Sandweiler í Lúxemborg 2008 og Europaische Kunstakademie Trier í Þýskalandi 2013. Hún hefur haldið átta einkasýningar á Íslandi og erlendis og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum um allan heim. Thora rekur vinnustofuna Lifandi vinnustofa í Listagilinu.