Auður Lóa Guðnadóttir
Forvera
02.06.2022-14.08.2022
Salur 12
Auður Lóa Guðnadóttir (f. 1993) er myndlistarmaður sem leikur sér á landamærum hins huglæga og hlutlæga, skúlptúrs og teikningar, listar og veruleika. Hún vinnur markvisst með hversdagsfyrirbæri og fígúratíft myndmál sem hún sækir í forna jafnt og nýliðna sögu. Auður Lóa leitast við að virkja sjálf listaverkin, ætíð þó sem fyrirbæri í sínu eigin félagslega umhverfi. Á sýningunni Forvera heldur hún áfram á þeirri braut, en heimilisbúnaður og skrautmunir frá ýmsum tímapunktum sögunnar eru að þessu sinni í brennidepli.
Auður Lóa útskrifaðist af myndlistasviði Listaháskóla Íslands 2015. Síðan þá hefur hún starfað sjálfstætt, í samstarfi við aðra listamenn og tekið þátt í sýningum, s.s. Leikfimi í Safnasafninu, Djúpþrýstingur í Nýlistasafninu og Allt á sama tíma í Hafnarborg. Hún hlaut hvatningarverðlaun Myndlistarráðs 2018 fyrir sýninguna Díana, að eilífu sem hún tók þátt í og stýrði. Vorið 2021 opnaði hún sína fyrstu stóru einkasýningu í D-sal Listasafns Reykjavíkur, Já / Nei, sem samanstóð af yfir 100 skúlptúrum úr pappamassa.