ALÞJÓÐLEG DANSVÍDEÓHÁTÍÐ
BOREAL SCREENDANCE FESTIVAL 2025
24.10.2025 – 09.11.2025
Salir 10 11
Boreal Screendance Festival er alþjóðleg dansvídeóhátíð sem haldin er á Akureyri. Fyrsta hátíðin fór fram í Mjólkurbúðinni í nóvember 2020, en nú teygir hún anga sína um allt Listagilið. Með Boreal skapast vettvangur til kynningar á dansvídeóum með það markmið að leiða saman innlent og erlent listafólk, byggja brýr heimsálfa á milli og hvetja til samstarfs.
Á hátíðinni eru sýnd metnaðarfull dansvídeó alls staðar að úr heiminum. Verkin eru sýnd á breiðtjöldum, þeim varpað á veggi, glugga og fleiri fleti sýningarrýma, en mikil áhersla er lögð á að sýningarnar fari fram í faglegu umhverfi svo verkin njóti sín sem best. Sérstaða Boreal er fólgin í innsetningum sem settar eru upp í kringum sum verkin, sem veita þeim í senn meiri dýpt og nýja vídd.
Hátíðin stendur einnig fyrir fjölbreyttum danstengdum viðburðum og samkomum á sýningartímanum. Ókeypis er inn á alla viðburði.
Listrænn stjórnandi: Yuliana Palacios