Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson
Vísitasíur
25.09.2021-16.01.2022
Salir 02 03 04 05
Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson vinna saman að þverfaglegum myndlistarverkefnum í listasöfnum víða um heim. Þau vinna jafnt með sérfræðingum sem leikmönnum og í verkum sínum skoða þau birtingarform dýra í samfélagslegu, menningarlegu og umhverfislegu samhengi. Verk þeirra afhjúpa menningartákn, sýna fram á hefðir og viðbrögð manna gagnvart dýrum, um leið og þau varpa ljósi á spurningar um náttúruvernd og ólíka afstöðu manna til útrýmingarhættu lífríkisins í vistfræðilegu samhengi.
Vísitasíur er sýning á verkum þeirra og hluti af listrannsóknarverkefninu Ísbirnir á villigötum, unnið í samstarfi sérfræðinga á sviði myndlistar, þjóðfræði og náttúru- og umhverfisfræði. Markmið verkefnisins er að auka þekkingu á fjölþættum tengslum dýra, manna og umhverfis á tímum loftslagshlýnunar. Áhersla verður lögð á að rannsaka birtingarform hvítabjarna á Íslandi í sögulegu og samtímalegu samhengi.
Verkefnið er stutt af Rannsóknasjóði Rannís og hýst við Listaháskóla Íslands, þar sem Bryndís gegnir starfi prófessors og fagstjóra meistaranáms myndlistardeildar. Sýningin er unnin í samvinnu við Anchorage safnið í Alaska.
Sýningarstjóri: Æsa Sigurjónsdóttir, dósent í listfræði við Háskóla Íslands.
Frekari upplýsingar um Ísbirni á villigötum má sjá HÉR.