SAMSÝNING
SKÖPUN BERNSKUNNAR 2025
22.02.2025 – 21.04.2025
Salir 10 11
Þetta er í tólfta sinn sem sýning með heitinu Sköpun bernskunnar er sett upp í Listasafninu á Akureyri. Markmið sýningarinnar er að efla safnfræðslu og gera sýnilegt og örva skapandi starf barna á aldrinum fimm til sextán ára. Þátttakendur hverju sinni eru skólabörn og starfandi myndlistarmenn, ásamt Minjasafninu á Akureyri / Leikfangahúsinu.
Í ár var myndhöggvaranum Sólveigu Baldursdóttur boðin þátttaka í verkefninu. Einkasýning hennar, Augnablik – til baka, var opnuð í Listasafninu í nóvember 2024, en í febrúar 2025 mun sýningin umbreytast og ný verða til: Sköpun bernskunnar 2025. Þar munu safngestir sjá skúlptúra Sólveigar í nýju samhengi og í samtali við verk barnanna.
Skólarnir sem taka þátt að þessu sinni eru leikskólinn Hólmasól og grunnskólarnir Giljaskóli, Lundarskóli, Oddeyrarskóli og Síðuskóli. Í vetur komu skólabörnin í Listasafnið og unnu verk sín fyrir sýninguna undir handleiðslu listamannsins. Þar fengu þau tækifæri til að kynnast Sólveigu og nota skúlptúra hennar sem innblástur í eigin sköpun.
Sýningarstjóri: Heiða Björk Vilhjálmsdóttir.