VALIN VERK FYRIR SKÖPUN OG FRÆÐSLU
MARGSKONAR I-II
22.02.2025 – 17.08.2025
30.08.2025 – 08.02.2026
Salur 07
Hvernig fæðist hugmynd að listaverki? Listamenn nota margskonar aðferðir til að miðla og tjá hugmyndir sínar. Í myndlist merkir orðið miðill þá leið eða aðferð sem listamaður hefur valið til að vinna verk sín í. Til eru fjölbreyttar miðlunaraðferðir og skilin á milli þeirra geta verið óljós. Sumir listamenn nota miðla sem löng hefð er fyrir á meðan aðrir gera tilraunir með ólík efni og tækni til þess að ná fram þeim áhrifum sem verið er að sækjast eftir.
Markmið sýningarinnar er að fræða safngesti um ólíka miðla myndlistar út frá völdum verkum úr safneign Listasafnsins á Akureyri. Verkin eru fjölbreytt, eftir ólíka listamenn og unnin með margskonar aðferðum.
Safngestir fá jafnframt tækifæri til að setja mark sitt á sýninguna, sækja sér innblástur í verkin og skapa sína eigin list í hvetjandi umhverfi.
Sýningarstjóri: Heiða Björk Vilhjálmsdóttir.