Flýtilyklar
Viðtalsbók við Jón Laxdal
Laugardaginn 12. mars næstkomandi kemur út á vegum Listasafnsins á Akureyri viðtalsbókin … úr rústum og rusli tímans … þar sem Guðbrandur Siglaugsson ræðir við listamanninn Jón Laxdal Halldórsson. Texti bókarinnar er þýddur yfir á ensku, hollensku, grísku og latínu, en hún er gefin út í tengslum við samnefnda sýningu Jóns Laxdal sem staðið hefur í Listasafninu á Akureyri síðan 16. janúar og lýkur sunnudaginn 13. mars næstkomandi. Útgáfuteiti bókarinnar verður í Listasafninu laugardaginn 12. mars kl. 15.
Um vinnuna segir Guðbrandur: „Þó svo einfalt virðist er það ekki áhlaupaverk að skrifa texta í kver eins og það sem út kemur í tilefni sýningarloka Jóns Laxdal Halldórssonar. Upphaflega var ætlunin að samtal okkar færi fram í góðu tómi, sem það reyndar gerði, og úr nægu væri að moða og orðin röðuðu sér einfaldlega af sjálfsdáðum. Einatt verður svo endir annar á en upp með er lagt. Útkoman er þessi. Traustlega útfært umbrot Aðalsteins Svans Sigfússonar, elja prentara og þýðenda auk liðlegheita starfsfólks Listasafnsins á Akureyri gerir þetta kver að því sem það er.“
Af þessu tilefni verður stutt fyrirlestraröð í Listasafninu á Akureyri:
Miðvikudaginn 9. mars kl. 17.15
Svipmyndir úr svepparíkinu
Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir
sveppafræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands
Fimmtudaginn 10. mars kl. 17.15
Frá týndum myndlistarkonum til Guerrilla Girls
Gerla – Guðrún Erla Geirsdóttir
myndhöfundur og listfræðingur
Föstudaginn 11. mars kl. 17.15
Fáguð hreyfikerfi
Reynir Axelsson
stærðfræðingur
Aðgangur er ókeypis.
Leit

