Flýtilyklar
Síðasta sýningarhelgi tveggja sýninga
Nú stendur yfir síðasta sýningarhelgi á tveimur sýningum: Jónas Viðar – Jónas Viðar í safneign og Fríða Karlsdóttir – Ekkert eftir nema mýktin. Sýningarnar voru báðar opnaðar á síðustu Akureyrarvöku og þeim lýkur á morgun, sunnudaginn 9. mars.
Jónas Viðar – Jónas Viðar í safneign
Jónas Viðar Sveinsson (1962-2013) stundaði nám við Myndlistaskólann á Akureyri 1983- 1987 og framhaldsnám við Accademia di Belle Arti di Carrara á Ítalíu 1990-1994, þar sem hann útskrifaðist með hæstu einkunn. Eftir nám flutti Jónas aftur til Akureyrar þar sem hann var með vinnustofu í Listagilinu og starfrækti Jónas Viðar Gallerí í nokkur ár, þar sem nú er Mjólkurbúðin, salur Myndlistarfélagsins.
Jónas var virkur í sýningahaldi og kenndi auk þess við Myndlistaskólann á Akureyri og rak um tíma sinn eigin skóla. Síðar flutti hann til Reykjavíkur og vann áfram að myndlist og rak Jónas Viðar Gallerí í porti við Laugaveginn. Hann hélt yfir 40 einkasýningar á Íslandi og erlendis og tók þátt í fjölda samsýninga.
Stök fjöll, eyjur og vötn eru áberandi í málverkum Jónasar Viðars, en einnig mannslíkaminn í eldri verkum.
Fríða Karlsdóttir – Ekkert eftir nema mýktin
Í höndum Fríðu Karlsdóttur er mýktin hlýr óður til viðkvæmni og heiðarlegra mistaka – fínleg, snerting, ilmandi af blautu lyngi og slípuðum við. Í verkunum bregður fyrir notalegum hversdagslegum augnablikum; mjúkur hellir í taufellingum, sætukoppar og nakin vera sem sekkur í tjörn. Inn á milli leynast brot af ögn óhreinni mýkt; tært regnvatn flæðir niður holræsi, rauðvínsglas á hliðinni og lekandi kertavax.
En þrátt fyrir angurværð má einnig finna hnyttni og háð; krukka með súrum gúrkum og fitublettir í pizzakassa, til minnis um örlitla smán. En mýktin dæmir ekki, heldur faðmar og dvelur. Hún vefur sig þétt um hið andlega, ekki síður en hið veraldlega, leiftrandi í dökkum tónum af grænu og bláu. Hún þrýstir yrkisefnið eins og mjúkur faðmur, móðurlegur, föðurlegur og dýrslegur í senn.
Fríða Karlsdóttir (f. 1994) útskrifaðist af myndlistarbraut Gerrit Rietveld Academie í Amsterdam í Hollandi 2020. Hún býr og starfar á Akureyri, þar sem hún er hluti af sjálfstæða listhópnum Kaktus, sem stendur fyrir margs konar menningarstarfsemi í Ketilhúsinu á neðstu hæð Listasafnsins.
Fríða vinnur með frásagnir í gegnum ýmis konar miðla, s.s. vídeóverk, skúlptúra, textaverk og ýmiss konar handverk. Verk hennar líkjast oft náttúrulegum fyrirbærum, þau innihalda sterkar táknmyndir og þannig dramatíserar hún hversdagsleikann og segir frá einlægum upplifunum. Fríða hefur sýnt bæði hér á landi og erlendis.
Sýningarstjóri / Curator: Hekla Björt Helgadóttir.
Listasafnið er opið alla daga kl. 12-17. Verið velkomin!
Leit

