Flýtilyklar
Almenn leiðsögn á laugardaginn
12.03.2025
Laugardaginn 15. mars kl. 15 verður boðið upp á leiðsögn um sýningarnar Sköpun bernskunnar 2025 og Átthagamálverkið: Á ferð um Norðausturland liðinnar aldar. Aðgangur er innifalinn í miðaverði Listasafnsins.
Þetta er í tólfta sinn sem sýning með heitinu Sköpun bernskunnar er sett upp í Listasafninu á Akureyri. Markmið sýningarinnar er að efla safnfræðslu og gera sýnilegt og örva skapandi starf barna á aldrinum fimm til sextán ára. Þátttakendur hverju sinni eru skólabörn og starfandi myndlistarmenn ásamt Minjasafninu á Akureyri / Leikfangahúsinu. Í ár var myndhöggvaranum Sólveigu Baldursdóttur boðin þátttaka í verkefninu. Skólarnir sem taka þátt að þessu sinni eru leikskólinn Hólmasól og grunnskólarnir Giljaskóli, Hlíðarskóli, Lundarskóli, Oddeyrarskóli og Síðuskóli. Í vetur komu skólabörnin ásamt kennara sínum í Listasafnið og unnu verk sín fyrir sýninguna undir handleiðslu listamannsins. Þar fengu þau tækifæri til að kynnast Sólveigu og nota skúlptúra hennar sem innblástur í eigin sköpun.
Á sýningunni Átthagamálverkið ferðumst við um Norðausturland í gegnum sögu sem spannar rúma öld. Þetta eru Átthagamálverk sem máluð eru af ást og hlýju, uppfull af tilfinningu fyrir staðháttum og minningum fyrri tíma. Svo vill til að á þessu ferðalagi erum við óvenju heppin með veður! Hér munda pensilinn jafnt lærðir listamenn sem sjálfmenntað áhugafólk og skapa verk í persónulegu samtali við staði og minningar. Drifkrafturinn er einlæg löngun til að sýna og segja frá, dýpka tengsl, muna og varðveita, fremur en að takast á við strauma og stefnur í listsögulegu samhengi. Í verkunum er varðveitt saga ólíkra einstaklinga, en á sýningunni eru verk eftir um þrjátíu manns hvaðanæva af Norðausturlandinu. Um leið segja þau sögu einsleits samfélags sem deilir áþekkum örlögum á tímum samfélagsbreytinga.
Sýningin er unnin í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur.
Sýningin er unnin í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur.
Leit

