Flýtilyklar
Biggi í Maus á fyrsta Mysingi sumarsins
Á þjóðhátíðardaginn 17. júní kl. 12 fer fram fyrsti Mysingur sumarsins á útisvæði Ketilkaffis fyrir framan Listasafnið á Akureyri. Þá mun Biggi í Maus – Birgir Örn Steinarsson – koma fram ásamt Þorsteini Kára Guðmundssyni. Enginn aðgangseyrir er á tónleikana og hægt verður að kaupa mat og drykki frá Ketilkaffi á svæðinu. Tónleikaröðin er hluti af Listasumri og unnin í samstarfi Akureyrarbæjar, Listasafnsins á Akureyri, Ketilkaffis og Geimstofunnar.
Á tónleikunum mun Biggi spila efni af nýútkominni sólóplötu sem kom út fyrr í mánuðinum og ber heitið Litli dauði / Stóri hvellur í bland við eldra efni. Á plötunni, sem unnin er í samstarfi við Togga Nolem, má heyra ný lög auk ábreiðu á laginu I Don’t Remember Your Name eftir Friðrik Dór og Kiasmos. Hljóðheimur plötunnar er einhvers konar stökkbreyting á nýrómantík níunda áratugarins og gætir m.a. áhrifa Bauhaus, Baraflokksins, Blondie og Grafíkur.