Flýtilyklar
Allt til enda - Listvinnustofur barna
Listvinnustofur fyrir börn á grunnskólaaldri verða haldnar í Listasafninu í janúar, febrúar og mars næstkomandi. Boðið verður upp á þrjár ólíkar listvinnustofur endurgjaldslaust undir leiðsögn kraftmikilla og spennandi listamanna og hönnuða. Lögð er áhersla á að börnin taki virkan þátt í öllu ferlinu, frá því að leita sér innblásturs, skapa verkið í samstarfi við leiðbeinanda og sýna svo afraksturinn á sérstakri sýningu sem sett verður upp í lok listvinnustofunnar og er öllum opin. Þar fá börnin tækifæri til að láta ljós sitt skína á sinni eigin sýningu í Listasafninu á Akureyri, allt frá upphafi til enda. Ekkert þátttökugjald en skráning er nauðsynleg á heida@listak.is.
Allar nánari upplýsingar veitir Heiða Björk Vilhjálmsdóttir í netfanginu heida@listak.is eða í síma 892-0881.
Verkefnið er styrkt af Barnamenningarsjóði Íslands og Akureyrarbæ.
Listvinnustofa 1
23. - 24. janúar
Mjúk og litrík listvinnustofa með Lilý Erlu Adamsdóttur
Í þessari fyrstu vinnustofu verða kennd einföld útsaumsspor og aðferðir við gerð mismunandi áferða með garni. Verkin á sýningunni Skrúðgarður verða nýtt sem innblástur þegar við sköpum okkar eigin myndverk með útsaumi í striga. Í lok listvinnustofunnar læra börnin að setja upp sýningu á verkunum í Listasafninu á Akureyri. Sýningin stendur til 21. febrúar 2021.
Aldur: 8-12 ára.
Tímasetning: Kl. 11-14 laugardag og sunnudag.
Staðsetning: Safnfræðslurými Listasafnsins á Akureyri.
Þátttakendur: 10 börn – skráning nauðsynleg.
Skráning: heida@listak.is.
Listvinnustofa 2
27. - 28. febrúar
List í augsýn - Grímusmiðja með Ninnu Þórarinsdóttur
Í annarri listvinnustofunni ætlar barnamenningarhönnuðurinn Ninna Þórarinsdóttir að bjóða upp á grímusmiðju. Eitthvað breytist þegar við setjum á okkur grímu, við verðum eitthvað annað, eins og þegar við skoðum/ finnum/ hlustum á list. Skemmtileg grímusmiðja þar sem byrjað verður á að skoða sýningar Listasafnsins og í framhaldinu búa börnin til sínar eigin grímur í anda listaverkanna. Í lok vinnustofunnar setja þátttakendur verkin sín upp á sýningu í Listasafninu á Akureyri sem þau sjálf skipuleggja. Sýningin stendur til 14. mars 2021.
Aldur: 6-10 ára.
Tímasetning: Kl. 11-13 laugardag og sunnudag.
Staðsetning: Safnfræðslurými Listasafnsins á Akureyri.
Þátttakendur: 12 börn – skráning nauðsynleg.
Skráning: Nánar auglýst síðar.
Listvinnustofa 3
20. - 21. mars
Skoðum heiminn og listina - Ljósmyndavinnustofa með Siggu Ellu Frímannsdóttur
Í þriðju og síðustu vinnustofunni ætlar ljósmyndarinn Sigga Ella Frímannsdóttir að skoða heiminn og listina í Listasafninu á Akureyri með auga myndavélarinnar. Listvinnustofan er fyrir unglinga sem hafa áhuga á ljósmyndamiðlinum. Allir eru velkomnir, jafnt byrjendur sem lengra komnir. Vinnustofunni lýkur með sýningu í Listasafninu á Akureyri sem þátttakendur skipuleggja sjálfir. Sýningin stendur til 11. apríl 2021.
Aldur: 12-16 ára.
Tímasetning: Kl. 11-14 laugardag og sunnudag.
Staðsetning: Safnfræðslurými Listasafnsins á Akureyri.
Þátttakendur: 10 börn – skráning nauðsynleg.
Skráning: Nánar auglýst síðar.
Allt til enda er samstarfsverkefni Listasafnsins á Akureyri, Akureyrarstofu og Barnamenningarsjóðs Íslands.
Leit

