Þrjár sýningar opnaðar á laugardaginn

Þrjár sýningar opnaðar á laugardaginn
Hulda Vilhjálmsdóttir, Huldukona, 2024.

Laugardaginn 25. janúar kl. 15 verða opnaðar þrjár sýningar í Listasafninu á Akureyri: Hulda Vilhjálmsdóttir – Huldukona, Kristján Guðmundsson – Átta ætingar og Þórður Hans Baldursson / Þórunn Elísabet Sveinsdóttir – Dömur mínar og herrar. Boðið verður upp á listamannaspjall við Huldu, Þórð og Þórunni kl. 15.45.

Ákafi, eldur, styrkur

Hulda Vilhjálmsdóttir (f. 1971) útskrifaðist úr málaradeild Listaháskóla Íslands 2000 og hefur síðan haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum, bæði hér á landi og erlendis.

Málverkið hefur ætíð verið Huldu hin staðfasta jörð. Hún málar bæði fígúratíft og abstrakt, vinnur að mestu með akríl og olíu, en hefur einnig sýnt keramíkverk, klippimyndir, vídeóverk og gjörninga. Hulda er leitandi myndlistarmaður, en konan og endurfæðingarkrafturinn hafa verið sterk stef frá upphafi ferilsins.

Konan í verkum Huldu lifir í eigin heimi, oft einræn, jafnvel fjarlæg og fögur, dularfull og sorgmædd. Blái liturinn er einnig áhrifaríkur tónn í verkum Huldu, sem gefur til kynna ljóðrænan trega og rómantík einsemdar.

Ákafi, eldur, styrkur og berskjöldun listamannsins breytist með öguðum pensilstrokum í sköpun á striga og verður að lokum ósk um frið og fegurð í flóknum heimi. Sýningin Huldukona sýnir ólíka þræði í myndlist Huldu Vilhjálmsdóttur, þar sem ljómi listaverksins er í forgrunni – listin fyrir listina.

Sýningarstjóri: Hrafnhildur Gissurardóttir.

Meistari hugmyndalistarinnar

Kristján Guðmundsson fæddist á Snæfellsnesi 1941. Hann er sjálfmenntaður í myndlist og hélt sína fyrstu sýningu á Mokkakaffi í Reykjavík 1968. Hann var einn stofnenda Gallerí SÚM 1969 og veitti því forstöðu fyrsta árið. Síðar flutti Kristján til Amsterdam og bjó þar næstu níu árin, en flutti þá til Hjalteyrar.

Kristján er einn þekktasti fulltrúi hugmyndalistar hérlendis. Í verkum sínum og efnisvali gengur hann oft að mörkum viðtekinna skilgreininga á list. Á ferlinum hefur hann sýnt verk sín víða, en mest í Evrópu og Bandaríkjunum. Kristján er einnig þekktur fyrir bókagerð (e. artist books). Verk hans og bækur er að finna á ýmsum listasöfnum og hann hlaut sænsku Carnegie verðlaunin 2010.

Þessi sýning samanstendur af átta verkum sem eru nú frumsýnd á Íslandi. Ingibjörg Jóhannsdóttir sá um að þrykkja verkin og val á pappír. Öll verkin eru í einu eintaki – einstök.

Sýningarstjóri: Sigríður Örvarsdóttir.

Hugmyndir um kyn á sífelldri hreyfingu

Í verki Þórðar Hans, Karlakórinn í veggnum, glæðir listamaðurinn lafandi svört bindi lífi með notkun hljóðs og hreyfingar. Þá kunna bindin að tákna karlmannlega reglufestu og valdastöðu, en með samspili söngs og hreyfingar kemur verkið áhorfendum á óvart og afhjúpar ýmsar óséðar flækjur á gamansaman hátt.

Í verkinu Að vippa um sig vippu, persónugerir Þórunn sömuleiðis einföld klæði með uppsetningu á blaktandi slæðum sem anga af ilmvatni. Slæðurnar vekja jafnvel hugrenningar um menningarlegt samhengi, lúxus og kvenleika.

Verkin fá áhorfandann til að hugleiða forsendurnar sem hann gefur sér við fyrstu sýn tengdar kyni og sjálfsmynd. Verkin varpa ljósi á hversu flæðandi þetta allt er í eðli sínu, þar sem hugmyndir um kyn eru á sífelldri hreyfingu og standa aldrei í stað.