Flýtilyklar
Þriðjudagsfyrirlestur: Yuliana Palacios
Þriðjudaginn 29. október kl. 17-17.40 heldur Yuliana Palacios Þriðjudagsfyrirlestur undir yfirskriftinni Boreal Screendance Festival. Fyrirlesturinn fer fram á ensku og er aðgangur ókeypis.
Í fyrirlestrinum mun Yuliana fjalla um dansvídeóhátíðina Boreal sem fram fer á Akureyri 1.-10. nóvember næstkomandi. Með Boreal skapast vettvangur til kynningar á dansvídeóum með það markmið að leiða saman innlent og erlent listafólk, byggja brýr heimsálfa á milli og hvetja til samstarfs. Á hátíðinni eru sýnd metnaðarfull dansvídeó alls staðar að úr heiminum. Verkin eru sýnd á breiðtjöldum, þeim varpað á veggi, glugga og fleiri fleti sýningarýma. Sérstaða Boreal er fólgin í innsetningum sem settar eru upp í kringum sum verkin, sem veita þeim í senn meiri dýpt og nýja vídd. Þetta er í fimmta sinn sem hátíðin er haldin og er ókeypis á alla viðburði.
Yuliana Palacios er dansari, danshöfundur og gjörningalistakona frá Mexíkó sem hefur verið búsett á Íslandi síðan 2016. Á þessum árum hefur hún unnið sjálfstætt að eigin verkefnum og framleiðslu, oft í samvinnu við annað listafólk frá Akureyri. Hún stundar nú meistaranám í sviðslistum við Listaháskóla Íslands.
Þriðjudagsfyrirlestrarnir eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri og Gilfélagsins. Síðasta fyrirlestur vetrarins heldur Loji Höskuldsson, myndlistarmaður, þriðjudaginn 5. nóvember.