Boreal hefst á föstudaginn

Dansvídeóhátíðin Boreal verður opnuð í Listasafninu á Akureyri næstkomandi föstudagskvöld, 1. nóvember, kl. 20-22. Þetta er í fimmta sinn sem hátíðin er haldin og fara sýningarnar fram í Listasafninu, Mjólkurbúðinni og Deiglunni. Allir viðburðir eru opnir gestum að kostnaðarlausu og dagskrána má nálgast á samfélagsmiðlum og heimasíðum Boreal og Listasafnsins.

Boreal miðar að eflingu danslista og margmiðlunar með sérstakri áherslu á alþjóðasamstarf. Í ár verða sýndar 34 dansmyndir og vídeódansverk eftir listafólk frá 21 landi og hefur dagskráin aldrei verið fjölbreyttari. Hátíðin hefur markað sér sérstöðu í menningarlífi landsins og er eina hátíð sinnar tegundar sem haldin er árlega hérlendis.

Það er samtímadansarinn og danshöfundurinn Yuliana Palacios sem er stofnandi og verkefnastjóri Boreal. Hún flutti frá Mexíkó til Íslands 2016 og hefur síðan unnið sjálfstætt að eigin verkefnum og framleiðslu, oft í samvinnu við annað listafólk frá Akureyri. Hún stundar nú meistaranám í sviðslistum við Listaháskóla Íslands. Síðustu ár hefur Yuliana fengist við vídeódans í auknum mæli og er Boreal ein birtingarmynd þess.

 

Boreal hlaut hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar 2021 sem veitt eru framúrskarandi menningarverkefnum á landsbyggðinni.