Allt til enda hefst í mars

Listvinnustofur fyrir börn á grunnskólaaldri undir yfirskriftinni Allt til enda verða haldnar í Listasafninu í mars, apríl og maí. Ekkert þátttökugjald er á vinnustofurnar, en skráning nauðsynleg á heida@listak.is. Allt til enda er samstarfsverkefni Listasafnsins á Akureyri, Akureyrarbæjar og Barnamenningarsjóðs Íslands.

Boðið verður upp á þrjár ólíkar listvinnustofur undir leiðsögn kraftmikilla og spennandi listamanna og hönnuða.Lögð er áhersla á að börnin taki virkan þátt í öllu ferlinu, frá því að leita sér innblásturs, skapa verkið í samstarfi við leiðbeinanda og sýna svo afraksturinn á sérstakri sýningu sem sett verður upp í lok listvinnustofunnar og verður öllum opin. Þar fá börnin tækifæri til að láta ljós sitt skína á sinni eigin sýningu í Listasafninu, allt frá upphafi til enda.

Allar nánari upplýsingar veitir Heiða Björk Vilhjálmsdóttir í netfanginu heida@listak.is eða í síma 892-0881.

Listvinnustofa 12.-13. mars 2022   
Myndlistin aftaná – Listvinnustofa með Magnúsi Helgasyni 

Oft er sú myndlist sem til verður óafvitandi besta listin, aftan á striganum, á gólfinu, þar sem málningarslettur lentu óvart og fyrir tilviljun. Þar verður til spenna og hreyfing sem aðeins náttúran getur skapað. Í listvinnustofunni verður notast við tilraunir og rannsóknir til að skapa hugmyndir og myndlist með því að virkja náttúruna og tilviljunina í leit að jafnvægi og spennu. Vinnustofunni lýkur með sýningu í Listasafninu sem þátttakendur skipuleggja sjálfir. Sýningin stendur til 3. apríl 2022. 

Magnús Helgason útskrifaðist með BA gráðu í myndlist 2001 og hefur síðan unnið að tilraunakenndri kvikmyndagerð, innsetningum og málaralist. Undanfarin ár hefur Magnús helgað sig nokkuð tilraunakenndri en þó að mestu tvívíðri málaralist og hafa verk hans verið sýnd víða í söfnum og galleríum innanlands. 

Aldur: 7. – 10. bekkur.
Tímasetning: Kl. 11-14 laugardag og sunnudag.
Staðsetning: Safnfræðslurými Listasafnsins.
Þátttakendur: 10 börn – skráning nauðsynleg.
Skráning: Tekið við skráningum frá 2. mars á netfangið heida@listak.is

Listvinnustofa 9.-10. apríl 2022
Sköpun, tilraunir og flæði – Listvinnustofa með Jóni Ingiberg Jónsteinssyni 

Í þessari listvinnustofu verður boðið upp á fjölbreytt verkefni með áherslu á mismunandi tækni, ólík efni og aðferðir. Börnin verða hvött til að gera tilraunir, vinna í flæði og öðlast þannig aukið sjálfstraust í sinni listsköpun. Verkefnin verða unnin bæði sjálfstætt og í hóp. Í lok listvinnustofunnar læra börnin að setja upp sýningu á verkunum í Listasafninu. Sýningin stendur til 1. maí 2022. 

Jón Ingiberg Jónsteinsson er listamaður sem starfar sem grafískur hönnuður, myndlistarmaður og teiknari. Hann er fæddur og uppalinn í Reykjavík, nam myndlist við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og svo grafíska hönnun við Listaháskóla Íslands. Hann hefur haldið einkasýningu og tekið þátt í fjölda samsýninga. 

Aldur: 3.-6. bekkur.
Tímasetning: Kl. 11-14 laugardag og sunnudag.
Staðsetning: Safnfræðslurými Listasafnsins.
Þátttakendur: 10 börn – skráning nauðsynleg.
Skráning: Tekið við skráningum frá 30. mars á netfangið heida@listak.is

Listvinnustofa 14. – 15. maí 2022 – Listvinnustofa með Þykjó
Hefur þig alltaf vantað gott skott? Væri ekki gaman að geta búið til risastór fílaeyru eða einhyrningshorn? Komdu í þykjó með Ninnu og Sibbu!

Í listvinnustofunni fá börn tækifæri til að búa til sína eigin búninga með tveimur hönnuðum úr hönnunarteyminu Þykjó. Við fáum innblástur úr óvæntum áttum frá safngripum Listasafnsins og lærum að finna gull og gersemar úr endurnýttum efnalager. Vinnustofan veitir innsýn í sníðagerð og skapandi textílvinnu sem miðar að því að börnin eignist sinn eigin búning sem getur orðið uppspretta ímyndunarleikja. Í lok vinnustofunnar setja þátttakendur verkin sín upp á sýningu í Listasafninu, sem þau sjálf skipuleggja. Sýningin stendur til 5. júní 2022.

Ninna Þórarinsdóttir er barnamenningarhönnuður sem hannar fjölbreytt leikföng, myndskreytir bækur og byggingar og hefur leitt skapandi smiðjur fyrir börn síðustu ár.
Sigurbjörg Stefánsdóttir er fatahönnuður og klæðskeri sem hefur hannað og saumað búninga fyrir leikhús, óperur, bíómyndir og sjónvarpsþætti. Þær sérhæfa sig í að hanna fyrir börn - í samstarfi við börn - og hlakka mikið til að leggja af stað í ný ævintýri í Listasafninu 

Aldur: 1.-4. bekkur.
Tímasetning: Kl. 11-13 laugardag og sunnudag.
Staðsetning: Safnfræðslurými Listasafnsins á Akureyri.
Þátttakendur: 12 börn – skráning nauðsynleg.
Skráning: Tekið við skráningum frá 4. maí á netfangið heida@listak.is. 

Allt til enda er samstarfsverkefni Listasafnsins á Akureyri, Akureyrarbæjar og Barnamenningarsjóðs Íslands.