Tónleikar og þrjúbíó um helgina

Tónleikar og þrjúbíó um helgina
Kristján Edelstein.

Tólf tóna kortérið og Franska kvikmyndahátíðin verða á dagskrá í Listasafninu um helgina. Ókeypis er á báða viðburði.

Á morgun, laugardaginn 8. febrúar, kl. 15.00-15.15 og kl. 16.00-16.15 verður Tólf tóna kortérið í sal 04. Þá mun gítarleikarinn Kristján Edelstein spila eigin lagasmíðar og spuna úr tónum á rafgítar, langspil og önnur strengjahljóðfæri. Aðgangur er ókeypis og öll velkomin.

Tólf tóna kortérið er unnið í samstarfi við Tónlistarskólann á Akureyri og Listasafnið á Akureyri og hlaut styrki frá Sóknaráætlun Norðurlands Eystra, Menningarsjóði FÍH og Tónskáldasjóði Rúv/Stefs.

Little Girl Blue

Franska kvikmyndahátíðin hófst í gær og var uppselt á opnunarmyndina, Un p‘tit truc en plus, í Sambóunum. Listasafnið er að venju þátttakandi í hátíðinni og sýnir tvær myndir: sunnudaginn 9. febrúar kl. 15 verður sýnd heimildarmyndin Little Girl Blue og sunnudaginn 16. febrúar kl. 15 verður sýnd gamanmyndin Chien de la casse (Junkyard Dog). 

Little Girl Blue er heimildarmynd franska kvikmyndaleikstjórans Mona Achache um móður sína, rithöfundinn og ljósmyndarann Carole Achache sem féll fyrir eigin hendi 2016. Í myndinni segir Mona frá því þegar hún fann þúsundir ljósmynda, bréfa og upptakna sem móðir hennar skyldi eftir og hvernig hún vann úr þeim upplýsingum. Leikkonan Marion Cotillard bregður sér í hlutverk móðurinnar í leiknum atriðum. Hér er stikla.

Enginn aðgangseyrir er á sýningar hátíðarinnar en á sýningar í Sambíóunum þarf að skrá sig þar sem fjöldi sæta er takmarkaður. Á aðrar sýningar er nóg að mæta á staðinn. Frekari upplýsingar er að finna á upplýsingasíðu hátíðarinnar HÉR.