Flýtilyklar
Þriðjudagsfyrirlestur: Sanna Vatanen
Þriðjudaginn 13. febrúar kl. 17-17.40 heldur finnski textílhönnuðurinn Sanna Vatanen Þriðjudagsfyrirlestur undir yfirskriftinni Woolly Tales of a Textile Artist. Fyrirlesturinn fer fram á ensku og er aðgangur ókeypis.
Í fyrirlestrinum segir Sanna frá vinnu sinni í textílhönnun, langvarandi sambandi sínu við Ísland og verkefni sem hún vann í dvöl sinni í gestavinnustofu Gilfélagsins á Akureyri. Þar spann hún íslenska ull í einstakt band sem seinna var prjónuð úr peysan Landscape Lopis – innblásin af hinni kraftmiklu náttúru Íslands.
Sanna hlaut menntun sína við Hönnunar-og listaháskólann í Helskini (AALTO -háskólann), í Finnlandi. Á ferli sínum hefur hún gefið út sjö bækur þar sem hún leggur áherslu á notkun ullar úr héraði og annarra sjálfbærra efna.
Í heimalandi sínu er hún þekkt fyrir sýningar eins og Heklaðar keðjusagir (e. Crocheted Chainsaws) og nýlega Lankahine verkefnið þar sem fjölmargar fornar aðferðir við textílvinnslu eru færðar til nútímans. Hún býr á eynni Kökar í Álandseyjaklasanum, þar sem hún vinnur að nýjum verkefnum tengdum ull af Álandseyja-kindum.
Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Gilfélagsins og Myndlistarfélagsins á Akureyri. Aðrir fyrirlesarar vetrarins eru Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, safnfræðslufulltrúi, Guðrún Hadda Bjarnadóttir, handverks- og myndlistarkona, Joris Rademaker, myndlistarmaður, Pablo Hannon, hönnuður og listamaður, Donat Prekorogja, myndlistarmaður, og Egill Logi Jónasson, myndlistarmaður.