Flýtilyklar
Þriðjudagsfyrirlestur: Magnús Helgason
Þriðjudaginn 31. október kl. 17-17.40 heldur Magnús Helgason, myndlistarmaður, Þriðjudagsfyrirlestur undir yfirskriftinni Afþvíbarafyrirlestur Magnúsar. Þar mun hann fjalla um eigin myndlist og hvaða vinnuaðferðum hann beitir. Auk þess mun hann svara spurningum eins og Til hvers er myndlist Magnúsar? og Er þetta list?
Magnús Helgason útskrifaðist frá Listaháskólanum Aki í Hollandi 2001 og hefur síðan helgað sig tilraunakenndri kvikmyndalist, málaralist og innsetningalist. Magnús notar fundinn efnivið sem hann umbreytir ýmist í tvívíð málverk eða þrívíðar innsetningar. Hann tekur hluti og efni, ýmist sem náttúran hefur veðrað eða maðurinn skapað í öðrum tilgangi og raðar saman í nýja heild. Myndlist hans á ekki að þarfnast útskýringa. Helst eiga verkin að fara framhjá heilanum og hitta áhorfandann beint í hjartað.
Enginn aðgangseyrir er á fyrirlesturinn sem er samstarfsverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri og Gilfélagsins. Aðrir fyrirlesarar haustsins eru Kristín Elva Rögnvaldsdóttir, myndlistarkona, Heather Sincavage, gjörningalistakona og Rainer Fischer, myndlistarmaður.