Flýtilyklar
Þriðjudagsfyrirlestur: Loji Höskuldsson
Þriðjudaginn 5. nóvember kl. 17-17.40 heldur myndlistarmaðurinn Loji Höskuldsson síðasta Þriðjudagsfyrirlestur ársins undir yfirskriftinni Hversdagslegir þræðir. Aðgangur er ókeypis.
Í fyrirlestrinum mun Loji fjalla um verklag myndlistar sinnar og hvernig hún hefur þróast í gegnum árin. Einnig mun hann tala um hvernig myndlistin getur verið innblásin af umhverfi sem venjulega fær ekki mikinn byr í huga okkar þegar tekist er á við daginn.
Loji Höskuldsson útskrifaðist í myndlist frá Fjölbrautarskólanum í Breiðholti 2007 og frá Listaháskóla Íslands 2010. Í Listaháskólanum lagði hann stund á útsaum sem hefur síðan verið megin þráður í hans myndlist. Loji hélt sína fyrstu einkasýningu, Garður meðalmennskunnar, í Gallerí Port 2018 og hefur sýnt verk sín í Safnasafninu, Alþýðuhúsinu á Siglufirði, Ásmundarsal og á Kjarvalstöðum. Á síðasta ári hóf hann samstarf við V1 Gallery í Kaupmannahöfn og hélt þar einkasýninguna What I Gather.
Þriðjudagsfyrirlestrarnir eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri og Gilfélagsins og hefja aftur göngu sína í lok janúar á næsta ári.