Flýtilyklar
Þriðjudagsfyrirlestur: Anna Richardsdóttir
Þriðjudaginn 22. október kl. 17-17.40 heldur gjörningalistakonan Anna Richardsdóttir Þriðjudagsfyrirlestur undir yfirskriftinni Listafólk er besta fjárfestingin! Aðgangur er ókeypis.
Í upphafi fyrirlestursins ætlar Anna að kynna sína eigin list stuttlega og hvernig hún hefur verið fjármögnuð í gegnum árin. Í framhaldinu mun hún fjalla um mikilvægi þess að fjárfesta í listum. Jafnframt segir Anna frá tillögu sinni til að skapa sérstöðu á Akureyri með því að styrkja listafólk til sköpunar og hugmyndinni um tilraun þar sem áhrif aukins fjármagns til sjálftætt starfandi listafólks í ákveðinn tíma verða metin með tilliti til samfélagslegs og fjárhagslegs ávinnings.
Anna Richardsdóttir er gjörningalistakona sem hefur starfað við listsköpun á Akureyri í rúmlega 30 ár, en einnig ferðast víða um lönd með verk sem heitir Hreingjörningur. Hún flutti það verk fyrst í miðbæ Akureyrar vikulega í heilt ár, frá 1998 til 1999. Síðan hefur hún sett upp og flutt smærri og stærri verk, lang oftast í óhefðbundnum rýmum eins og t.d. í vinnutjaldi við Gúmmíendurvinnsluna.
Þriðjudagsfyrirlestrarnir eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri og Gilfélagsins. Síðustu fyrirlestra vetrarins halda Yuliana Palacios, dansari, og Loji Höskuldsson, myndlistarmaður.