Flýtilyklar
Þriðji og síðasti Mysingur sumarsins
Þriðji og síðasti Mysingur sumarsins fer fram á Akureyrarvöku, laugardaginn 31. ágúst kl. 17. Að venju verða tónleikarnir haldnir í Mjólkurporti Listasafnsins á Akureyri og að þessu sinni koma fram Skandall, Pitenz og Þorsteinn Kári. Enginn aðgangseyrir er á tónleikana og hægt verður að kaupa veitingar frá Ketilkaffi á svæðinu. Tónleikaröðin er hluti af Akureyrarvöku og unnin í samstarf Akureyrarbæjar, Listasafnsins á Akureyri, Ketilkaffis og Geimstofunnar.
Tónlistarmaðurinn Þorsteinn Kári hefur verið ötull í tónlistarlífinu undanfarin ár. Hann mun nú koma fram með eigin hljómsveit og spila lög af sinni annarri sóló plötu, Hvörf, sem er væntanleg síðar á árinu.
Pitenz er forskrift að óráðnum draumi og er það sem heyrist milli hleina. Pitenz er númer níu í lotukerfinu. Pitenz er Áki Frostason.
Meðlimir Skandals eru þær Inga Rós Suska Hauksdóttir (söngur), Kolfinna Ósk Andradóttir (hljómborð og fiðla), Margrét Sigurðardóttir (bassi), Sóley Sif Jónsdóttir (trommur og söngur) og Sólveig Erla Baldvinsdóttir (flauta). Hljómsveitin vann Viðarstaukinn 2023, tónlistarkeppni Menntaskólans á Akureyri og finna má lög hennar á Spotify.