Sýningarstjóraspjall

Sýningarstjóraspjall
Marja Helander, Monchegorsk, 2014.

Laugardaginn 8. júní kl. 15 verður sýningarstjóraspjall í Listasafninu um samsýninguna Er þetta norður? Hlynur Hallsson, safnstjóri og annar sýningarstjóra, mun segja frá sýningunni, tilurð hennar og einstaka verkum.

Hver er afmörkun „norðursins“? Hvar eru landamæri Norðurheimskautsins? Hvað einkennir þau sem sem eiga heima á slóðum Norðurheimskautsins? Eru verk listamanna frá norðurslóðum alltaf unnin undir áhrifum af búsetu þeirra þar? Samsýningin Er þetta norður? kannar svörin við þessum spurningum og þar eru sýnd verk eftir listamenn frá hinu víðfeðma norðri. Þátttakendur eru Gunnar Jónsson, Anders Sunna, Máret Ánne Sara, Inuuteq Storch, Nicholas Galanin, Dunya Zakharova, Marja Helander og Maureen Gruben.

Heimkynni listamannanna eru Sama-svæði Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, Ísland, Grænland, Síbería, Alaska og Norður-Kanada. Á sýningunni verður sjónum beint að því hvernig er að búa nærri heimskautsbaug, hvaða sameiginlega þætti og tengingar er að finna á meðal listamanna sem búa þetta norðarlega. Þessi fjölbreyttu menningarsvæði og samfélög, sem ná frá Alaska til Skandinavíu og Síberíu, eiga eitt sameiginlegt: Norðurheimskautið – norðrið.

Sýningin er hluti af Listahátíð í Reykjavík. Sýningarstjórar: Daría Sól Andrews og Hlynur Hallsson.