Opnun á fimmtudagskvöldi

Opnun á fimmtudagskvöldi
Auga hvalsins, Frantz Wulffhagen, 1669.

Fimmtudaginn 6. júní kl. 20 verða tvær sýningar opnaðar í Listasafninu á Akureyri: Samsýningin Er þetta norður? og Fluxus sýningarverkefnið STRANDED – W(H)/ALE A REMAKE PORTFOLIO – MORE THAN THIS, EVEN. Boðið verður upp á listamannaspjall með Inuuteq Storch og Gunnari Jónssyni um fyrrnefndu sýninguna og sýningarstjóraspjall með Wolfgang Hainke og Freyju Reynisdóttur um þá síðarnefndu. Fyrr um kvöldið, kl. 19.30, verður boðið upp á örtónleika með tveimur meðlimum grænlensku hljómsveitarinnar Nanook.

Er þetta norður? er hluti af Listahátíð í Reykjavík og er styrkt af Safnasjóði, Nordisk Kulturfond og Frame Contemporary Art Finland. Sýningin verður einnig sett upp í Norræna húsinu í Reykjavík 2025.

Er þetta norður?

Hver er afmörkun „norðursins“? Hvar eru landamæri Norðurheimskautsins? Hvað einkennir þau sem sem eiga heima á slóðum Norðurheimskautsins? Eru verk listamanna frá norðurslóðum alltaf unnin undir áhrifum af búsetu þeirra þar? Samsýningin Er þetta norður? kannar svörin við þessum spurningum og þar eru sýnd verk eftir listamenn frá hinu víðfeðma norðri. Þátttakendur eru Gunnar Jónsson, Anders Sunna, Máret Ánne Sara, Inuuteq Storch, Nicholas Galanin, Dunya Zakha, Marja Helander og Maureen Gruben.

Heimkynni listamannanna eru Sama-svæði Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, Ísland, Grænland, Síbería, Alaska og Norður-Kanada. Á sýningunni verður sjónum beint að því hvernig er að búa nærri heimskautsbaug, hvaða sameiginlega þætti og tengingar er að finna á meðal listamanna sem búa þetta norðarlega. Þessi fjölbreyttu menningarsvæði og samfélög, sem ná frá Alaska til Skandinavíu og Síberíu, eiga eitt sameiginlegt: Norðurheimskautið – norðrið.

Sýningarstjórar: Daría Sól Andrews og Hlynur Hallsson.

STRANDED – W(H)/ALE A REMAKE PORTFOLIO – MORE THAN THIS, EVEN

Sýningin samanstendur af verkum unnum í mismunandi miðla sem öll fjalla um eða tengjast hvölum á einn eða annan hátt. Hönnun sýningarinnar og vinnsla verkanna er í anda Flúxushreyfingarinnar og hefur hún verið sett upp víða, s.s. í Búdapest í Ungverjalandi og í Recife í Brasilíu. 

Á sýningunni má m.a. sjá – utan endurgerðar á verki Marcel Duchamp BOITE-EN-VALISE (1968) – endurprentun af risastóru málverki Franz Wulfhagen frá 1669 sem sýnir hvalreka. Verkið var fyrst sýnt í ráðhúsi Bremen í Þýskalandi, en Wulfhagen var einn af nemendum Rembrandt. Einnig verða sýnd verk eftir þekkta Flúxus listamenn, s.s. AY-O, Nam June Paik og Emmett Williams; listamenn er seinna tengdust Flúxus, s.s. Boris Nieslony, Ann Noël, Jürgen O. Olbrich, Pavel Schmidt og Natalie Thomkins, sem og Avantgarde listamennina Richard Hamilton, Allan Kaprow and Daniel Spoerri. 

Þátttaka, samvinna og samskipti eru miðlæg í sýningarhönnuninni og er hún hugsuð sem einhvers konar samkomuvettvangur fyrir Dance with Life

Sýningarstjórn og hönnun: Wolfgang Hainke og Freyja Reynisdóttir.