Opið á baráttudegi verkafólks

Opið á baráttudegi verkafólks
Guðný Kristmannsdóttir, Kveikja.

Listasafnið er opið á alþjóðlegum baráttudegi verkafólks, 1. maí, á hefðbundnum tíma kl. 12-17. Þá gefst gestum kostur á að sjá samtals 8 sýningar í 10 sölum, en salir 11 og 12 eru lokaðir vegna uppsetningar nemendasýninga Myndlistaskólans og listnáms- og hönnunarbrautar VMA. Sýningarnar bera yfirskriftina Sjónmennt 2024 og Bragðarefur og verða opnaðar næstkomandi laugardag kl. 15. 

Sigurður Atli Sigurðsson
Sena
Salur 01

Orðið scenography þýðir bókstaflega að skrifa í rými og var upphaflega notað til að lýsa því þegar tvívíð teikning er yfirfærð í þrívíddarteikningu; senan er teiknuð upp. Verkin á sýningunni sýna viðmiðunarpunkta hugrænnar kortlagningar og hvernig manneskjan gerir tilraun til að skipuleggja umhverfi sitt bæði út frá hugmyndafræði og líkamlegum þörfum.

Sigurður Atli Sigurðsson (f. 1988) býr og starfar í Reykjavík. Verk hans takast á við byggingarefni samfélagsins, með því að skoða þau kerfi sem við búum okkur til og lifum eftir. Í verkum sínum vinnur Sigurður Atli með ýmiss konar prentefni, útgáfu og bókverk, auk þess að notast við grafíktækni til að vinna stórar myndaraðir. Sérþekking hans á þessu sviði hefur leitt hann til að halda sýningar, kenna og stýra sýningum víða um heim, nú nýlega á samtímalistasafninu í Tókýó og Listasafni Íslands.

Alexander Steig
Steinvölur Eyjafjarðar
Salir 02 03

Í reglulegum gönguferðum sínum meðfram ánni Isar í München í Þýskalandi leitar listamaðurinn Alexander Steig (f. 1968) að steinvölum. Þar sem hann er menntaður listmálari og myndhöggvari er það frekar áhugi hans á skúlptúr en jarðfræði sem er hvatinn að þessari leit. Hann mun halda áfram að leita að steinvölum í fjörunni á Hjalteyri, en þangað hefur hann nú þegar komið tvisvar sinnum, 2008 og 2012.

Fyrir Listasafnið á Akureyri hefur hann upphugsað verkefnið eyja-fjörður-vala, sem er tileinkað steinvölum heima-fjarðar Akureyrar – Eyjafirði. Sem myndrænum leikmunum breytir hann steinvölunum miðlægt og skoðar með því skammlífi þeirra með vísun í „pússningu“ þeirra, mismunandi stærð og möguleika á skyggingu. Listamaðurinn varpar síðan tæknilega þessu stein-vídeói og sér þá það sem virðist vera kyrrstæð hreyfimynd; steinvölurnar snúast í raun um möndul sinn á 24 tíma fresti. Steig sýnir óskynjanlega hreyfimynd þar sem tvívídd „myndarinnar“ og þrívídd uppruna hennar teygja sig yfir í fjórðu víddina, tímann.

Guðný Kristmannsdóttir
Kveikja
Salir 04 05

Djarfar og kröftugar pensilstrokur bera ekki vitni um hvatvísi í stórfelldum málverkum akureyrsku listakonunnar Guðnýjar Kristmannsdóttur (f. 1965), heldur birtast villtar og goðsagnakenndar skepnur upp úr löngu og meðvituðu ferli – hvort sem það er páfugl með strap-on eða skordýr í trylltum hlátri. Þykk upphleðsla lita, þunnar málningastrokur og hrár grunnur á yfirborði málverksins skapa kraftmiklar en yfirvegaðar hliðstæður sem blása lífi í skepnurnar. Skapandi og hrekkjótt; gleði þeirra er smitandi. Play Me – Kveikja er titill eins verksins. Athugið að þér er ekki endilega boðið til leiks, heldur er verið að lokka þig til þess að gefa lausan tauminn og ganga inn í heim nautnalegrar gleði listamannsins.

Brynhildur Kristinsdóttir
Að vera vera
Salur 06

Verurnar hafa fylgt mér frá því að ég skoðaði Museo della Statue Stele Lunigianesi í Pontremoli á Ítalíu vorið 1990. Frumstæðar höggmyndirnar höfðu mikil áhrif á mig og hafa fylgt mér æ síðan. Í verkum mínum skoða ég þenslu málverksins ásamt því að breyta lögun þess frá flatneskju yfir í þrívítt form. Ég velti fyrir mér hvað er innan og utan myndformsins og tengslum þess við umhverfið, en undanfarin ár hef ég í auknum mæli valið að sýna verk mín utandyra.“

Brynhildur Kristinsdóttir (f. 1965) vinnur með mismunandi miðla sem taka mið af viðfangsefninu hverju sinni. Hún hefur kennt myndlist og átt í samstarfi við ýmsa listamenn, gert leikmyndir og búninga fyrir gjörninga og dans. Brynhildur nam myndlist í Myndlistaskólanum á Akureyri og Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Hún lauk kennaranámi frá Háskólanum á Akureyri og meistaranámi í listkennslu frá Listaháskóla Íslands 2022. Hún hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum.

Samsýning
Samspil
Salur 07

Sýningin Samspil er afrakstur þess að bjóða ungmennum af erlendum uppruna að sækja listvinnustofu í Listasafninu á Akureyri. Í vinnustofunni fá þau innblástur úr völdum verkum úr safneigninni og vinna eigin verk undir handleiðslu starfandi listamanna. Í ferlinu fá þátttakendur tækifæri til að efla þekkingu sína, tjá sig í gegnum listina á eigin forsendum og koma Sjónarmiðum sínum á framfæri. Þeir kynnast jafnframt listsköpunarferlinu frá upphafi til enda; frá því að hugmynd fæðist þar til afraksturinn er settur upp á sýningu. Listamennirnir Brák Jónsdóttir og Þórir Hermann Óskarsson stjórna vinnunni með áherslu á sköpun og sjálfstæði.

Með verkefni sem þessu vill Listasafnið ná til breiðari hóps safngesta og hvetja ungmenni af erlendum uppruna og fjölskyldur þeirra til virkrar þátttöku í menningarstarfi. Tryggja þarf aðgengi að menningu fyrir alla þjóðfélagshópa, því fjölbreytni í menningarlífi styrkir samfélagið.

Verkefnið er unnið í samstarfi við Velferðarsvið Akureyrarbæjar og styrkt af Barnamenningarsjóði Íslands.

Safn: Hildigunnur Birgisdóttir og verk úr safneign
Salur 08

Allt frá því fyrstu listasöfnin í eigu almennings voru sett á stofn á síðari hluta 18. aldar, hafa þau gegnt ákveðnum skyldum gagnvart listaverkaeigninni, en listasafn telst auðvitað ekki raunverulegt safn nema þar sé að finna safneign. Helstu skyldur eru: að skrá safneignina, upplýsa almenning um gildi hennar og sýna hana.

Á þessari sýningu er þessum skyldum framfylgt með fremur óhefðbundnum hætti, þar sem safnstjóri Listasafnsins á Akureyri, Hlynur Hallsson, leitaði til Jóns B. K. Ransu, sýningarstjóra, um að setja saman sýningu úr safneigninni, sem þá leitaði til myndlistarkonunnar Hildigunnar Birgisdóttur til að vinna sjónrænt með safneignina – í raun eins og að um hvert annað hráefni væri að ræða. Hildigunnur er þekkt fyrir að nota söfnun og skrásetningu sem hluta af listsköpunarferlinu. Safn, í þessum skilningi, hefur því tvöfalda merkingu: annars vegar er það eignin sem Listasafnið á Akureyri hefur sankað að sér og hins vegar listaverk eftir Hildigunni Birgisdóttur.

Sýningarstjóri: Jón B. K. Ransu.

Salóme Hollanders
Engill og fluga
Salur 09 

Heimur málverksins býr yfir dulúð og draumkenndum narratívum um merkingu og myndrænt landslag. Í rýminu speglast víddir hins tvívíða flatar og hins þrívíða efnisheims, þar sem form, línur og fletir hafa oltið fram úr striganum inn í rýmið, eins og teningar sem er kastað á spilaborð. Að standa í miðju málverki og upplifa það innan úr því sjálfu, finna fyrir andrúmslofti og efniskennd þess. Að hreyfa sig innan strigans. Flakk einfaldra en óræðra forma vídda á milli hefur í för með sér nýja möguleika og ljóst er að ekki er allt sem sýnist á tvívíðum fleti strigans.

Salóme Hollanders (f. 1996) lauk BA-námi við Listaháskóla Íslands í vöruhönnun vorið 2022. Verk hennar eru gjarnan á mörkum hönnunar og myndlistar, þar sem hún kannar rýmið sem skapast við skörun sviðanna tveggja. Salóme hefur tekið þátt í sýningum hérlendis og erlendis, en sýningin Engill og fluga er fyrsta einkasýning hennar á opinberu listasafni.

Heiðdís Hólm
Vona að ég kveiki ekki í
Salur 12 

Heiðdís Hólm (f. 1991) er myndlistarmaður sem vinnur með margs konar miðla, þar á meðal málverk, teikningu og gjörninga. Útgangspunktur verka hennar er oft persónulegar upplifanir og minningar sem verða hráefni ferlisins, sem sveiflast á milli léttúðugrar ýkju, myrkrar sjálfsskoðunar og sköpunar skáldaðra frásagna. Á sýningunni leitar hún að húmornum í dramatíkinni eða dramatíkinni í húmornum og ójafnvæginu sem þar ríkir. Verkin endurspegla margbreytileika mannlegs ástands, áhrif manns á náttúru og afleiðingar þeirra áhrifa.

Heiðdís Hólm útskrifaðist af fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri 2016 og er með PgDip í myndlist frá Glasgow School of Art 2020. Þetta er fyrsta einkasýning hennar í safni, en hún hefur haldið og tekið þátt í ýmsum einka- og samsýningum og hátíðum á Íslandi og í Evrópu. Hún er búsett á Seyðisfirði og starfar hjá LungA skólanum.