Listamannaspjall með Einari Fal á laugardaginn

Listamannaspjall með Einari Fal á laugardaginn
Einar Falur Ingólfsson.
Boðið verður upp á listamannaspjall í Listasafninu næstkomandi laugardag, 23. nóvember, kl. 15. Þá mun Freyja Reynisdóttir, verkefnastjóri, ræða við Einar Fal Ingólfsson um sýningu hans Útlit loptsins – Veðurdagbók sem opnuð var í sal 04 í september síðastliðnum. Aðgöngumiði að safninu veitir aðgang að spjallinu.

Frá vori 2022 og að sumarsólstöðum 2023 var Einar Falur Ingólfsson fulltrúi Íslands í fjölþjóðlegu verkefni um veðrið, Veðurneti heimsins, World Weather Network, sem stofnað var til af Artangel í London með þátttöku myndlistarstofnana í 28 löndum.

Meginhluta tímans var Einar Falur staðarlistamaður í Vatnasafni í Stykkishólmi og vann daglega að röð verka um veður og tíma. Hryggjarstykkið þar er veðurdagbókin Útlit loptsins. Tók hann veðrið á hádegi dag hvern og stillti þar saman ljósmynd af himninum, opinberri veðurskráningu á því augnabliki og veðurskráningu Árna Thorlaciusar í Stykkishólmi á sama tíma 170 árum fyrr. Veðurdagbókin verður sýnd í heild auk fleiri ljósmynda-, vídeó- og textaverka.
Einar Falur Ingólfsson er bókmenntafræðingur og með MFA-gráðu frá School of Visual Arts í New York. Verk hans hafa verið á sýningum í söfnum og sýningarsölum víða um lönd og eru í eigu helstu listasafna á Íslandi.