Flýtilyklar
Leiðsögn á laugardegi
Laugardaginn 18. janúar kl. 15 verður boðið upp á leiðsögn um tvær sýningar: Fríða Karlsdóttir - Ekkert eftir nema mýktin og Jónas Viðar - Jónas Viðar í safneign. Aðgangur er innifalinn í miðaverði Listasafnsins.
Fríða Karlsdóttir (f. 1994) útskrifaðist af myndlistarbraut Gerrit Rietveld Academie í Amsterdam í Hollandi 2020. Hún býr og starfar á Akureyri, þar sem hún er hluti af sjálfstæða listhópnum Kaktus, sem stendur fyrir margs konar menningarstarfsemi í Ketilhúsinu á neðstu hæð Listasafnsins. Fríða vinnur með sögusagnir í gegnum blandaða miðla, vídeóverk, skúlptúra, textaverk og ýmiss konar handverk. Verk hennar líkjast oft náttúrulegum fyrirbærum, þau innihalda sterkar táknmyndir og þannig dramatíserar hún hversdagsleikann og segir frá einlægum upplifunum. Fríða hefur sýnt bæði hér á landi og erlendis.
Jónas Viðar Sveinsson (1962-2013) stundaði nám við Mynlistaskólann á Akureyri 1983-1987 og framhaldsnám á Ítalíu 1990-1994. Jónas var virkur í sýningarhaldi, kenndi við Myndlistaskólann á Akureyri og vann ýmis verkefni fyrir Leikfélag Akureyrar. Hann hélt yfir 40 einkasýningar á Íslandi og erlendis og tók þátt í fjölda samsýninga. Á ferlinum gerði Jónas ýmsar tilraunir í myndlist. Í elstu verkunum er fíguratífur mannslíkaminn áberandi, en síðar urðu kyrrð og fegurð í íslensku landslagi allsráðandi; sjóndeildarhringurinn, hafið, land, fjöll og eyjar. Nokkurn fjölda verka eftir Jónas er að finna í safneign Listasafnsins á Akureyri og má sjá hluta af þeim á þessari sýningu.