Flýtilyklar
Fjölskyldujóga í Listasafninu
Laugardaginn 19. apríl kl. 11-12 verður boðið upp á fjölskyldujóga í Listasafninu undir yfirskriftinni Á haus í Listasafninu. Viðburðurinn er hluti af Barnamenningarhátíð og er ókeypis aðgangur, en skráning nauðsynleg á heida@listak.is. Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir, jógakennari og hljóðheilari, býður fjölskyldur velkomnar í samverustund þar sem hún fléttar saman fjölskyldujóga og skynjun í núvitund með listrænu ívafi.
„Við byrjum á að setjast á jógadýnu, koma inn á við, loka augunum og anda rólega,“ segir Arnbjörg Kristín um samverustundina. „Í kjölfarið gerum við jógastöður og teygjum á. Að því loknu verður farið í ævintýraleiðangur í núvitund um Listasafnið og litir, form og útlínur skoðuð til að þroska skynjun og eftirtekt. Þátttakendur eru í kjölfarið hvattir til að túlka verkin með eigin orðum ásamt því að bregða á leik í tengslum við verkin. Í lokin verður svo slakað á við vel valda tóna úr ýmsum hljóðfærum í kyrrlátu andrými Listasafnsins.“
Verkefnið er styrkt af Barnamenningarsjóði Akureyrarbæjar.
Leit

