Flýtilyklar
Boreal hefst á föstudaginn
Dansmyndahátíðin Boreal hefst í Listasafninu föstudaginn 10. nóvember kl. 20. Hátíðin stendur yfir til 23. nóvember og er nú haldin í fjórða sinn. Sýningarnar fara fram í Listasafninu, Deiglunni og Mjólkurbúðinni. Aðgangur er ókeypis.
Boreal Screendance Festival miðar að eflingu danslista og margmiðlunar með áherslu á alþjóðasamstarf. Í ár verða sýndar 36 dansmyndir og vídeódansverk eftir listafólk og hópa frá 22 löndum og hefur dagskráin aldrei verið fjölbreyttari þegar litið er til fjölda listafólks, fjölbreytni verka og uppruna þeirra. Í ár verður í fyrsta sinn flutt verk á sviði fyrir framan áhorfendur og kemur það í hlut Suður-kóreska listamannsinns Hoyoung Im, sem flytur dansgjörninginn Euphoria í Deiglunni fimmtudaginn 16. nóvember kl. 20. Boreal er eina dansmyndahátíðin sem haldin er árlega á Íslandi og skipar sér því mikla sérstöðu.
Mexíkóski samtímadansarinn og danshöfundurinn Yuliana Palacios er stofnandi og verkefnastjóri Boeral. Hún flutti til Íslands 2016 og hefur síðan látið að sér kveða í menningarlífi landsins. Hún hefur sett upp sjálfstæð dans- og gjörningaverk, unnið með öðru listafólki auk þess að sinna kennslu. Síðustu ár hefur Yuliana fengist við vídeódans í auknum mæli og er Boreal ein birtingarmynd þess.
Boreal hlaut hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar 2021, sem veitt eru framúrskarandi menningarverkefnum á landsbyggðinni.
Samstarfs- og styrktaraðilar eru: SSNE og Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra, Physical Cinema Festival, Prentmet/Oddi, Listasafnið á Akureyri og Gilfélagið/Deiglan.
Nánari upplýsingar um verkefnið, þátttakendur og myndefni má finna á:
Instagram: https://www.instagram.com/boreal_akureyri/
Facebook: https://www.facebook.com/borealakureyri
Heimasíða: https://borealak.is/
Viðburður: https://fb.me/e/3Z2btffr0