Allt til enda: Steinn Friðriksson

Önnur vinnustofa Allt til enda fer fram dagana 18. - 19. nóvember 2023. Þá mun Friðrik Steinn Friðriksson, vöru- og upplifunarhönnuður, bjóða ungmennum að skapa módel af húsgögnum sem í framhaldinu er auðvelt að vinna með heima. Húsgögn sem bæði eru míní útgáfa af venjulegum hlutum og skref í átt að því að smíða í fullri stærð. Unnið verður í skala og efni sem auðvelt er að yfirfæra og stuðst við fagurfræði Enzo Mari og Rietveld. Vinnustofunni lýkur með sýningu í Listasafninu á Akureyri sem þátttakendur skipuleggja sjálfir. Sýningin stendur til 17. desember 2023. 

Friðrik Steinn útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands 2011 með B.A. gráðu í vöruhönnun. Árið 2013 lauk hann M.F.A. gráðu frá Konstfack í Stokkhólmi. Síðan hefur hann starfað við ýmis verkefni tengd hönnun. Friðrik var stundarkennari í LHÍ frá 2014 til 2018, hann sat í stjórn Vöru- og iðnhönnunarfélagsins frá 2019-21 og hefur setið í stjórn Hönnunarsjóðs frá árinu 2021 til 2023.  

Aldur: 7. - 10.  bekkur.
Tímasetning: 18. - 19. nóvember kl. 11-14 báða dagana.
Staðsetning: Safnfræðslurými Listasafnsins á Akureyri.
Þátttakendur: 10 ungmenni.
Þátttökugjald: Ekkert en skráning nauðsynleg.
Skráning: heida@listak.is.

Allt til enda felst í því að bjóða börnum á grunnskólaaldri að sækja þrjár ólíkar listvinnustofur í Listasafninu á Akureyri og vinna þar verk undir leiðsögn kraftmikilla og spennandi listamanna og hönnuða. Lögð er áhersla á að börnin taki virkan þátt í öllu ferlinu, frá því að leita sér innblásturs, skapa verkið í samstarfi við leiðbeinanda og sýna svo afraksturinn á sérstakri sýningu sem sett verður upp í lok listvinnustofunnar og verður öllum opin. Þar fá börnin tækifæri til að láta ljós sitt skína á sinni eigin sýningu í Listasafninu á Akureyri; allt frá upphafi til enda. 

Allar nánari upplýsingar veitir Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, verkefnastjóri, á netfanginu heida@listak.is eða í síma 892-0881.  

Allt til enda er samstarfsverkefni Listasafnsins á Akureyri, Akureyrarbæjar og Safnasjóðs. Verkefnið er styrkt af Safnasjóði og Akureyrarbæ.